Eldstöðin Katla er metin næsthættulegasta eldstöðin undir ís í heiminum, samkvæmt nýjum gagnagrunni jarðvísindamanna í Bandaríkjunum og Kanada. Notuð var stafræn tækni til að kortleggja áhrif eldstöðvanna út frá eldfjallagagnagrunni Smithsonian og gagnagrunni Randolph um jökla.

Eldfjallið Villarica í Síle er talin hættulegasta eldstöðin undir ís. Er Katla eina eldstöðin utan Ameríku á listanum, en hinar eru í Bandaríkjunum, Kólumbíu, Argentínu og Ekvador. Hættan er metin út frá hversu margir búa nálægt eldstöðvunum, gerð þeirra, krafti og magni íssins sem þekur þær.

Magn íssins er einmitt sérstaklega mikið á íslensku stöðvunum, svo sem Bárðarbungu og Grímsvötnum. „Sem betur fer eru þær þrjár eldstöðvar sem hafa mesta ísinn, allar á Íslandi, ekki með neina fasta búsetu í 30 kílómetra radíus,“ segir í skýrslunni með gagnagrunninum. Jökulhlaup geti þó valdið miklum skaða.

Í hinum nýja gagnagrunni, sem telur 245 eldstöðvar, kemur fram að 160 milljónir manns búi innan við 100 kílómetra frá eldstöðvum undir ís. Krafturinn þegar eldur og ís mætast sé gríðarlegur, öskulög þeki himininn, snjóflóð og skriður geti farið af stað sem og hlaup. Þessar eldstöðvar geti því verið mikil ógn við byggðir víða um heim.