Útlit er fyrir að 2020 verði næsthlýjasta ár síðan mælingar hófust í kringum árið 1850. Þetta kemur fram í bráðabirgðaskýrslu frá Alþjóðaveðurfræðistofnuninni sem birt var í gær.

Í skýrslunni kemur fram að meðalhitastig heimsins hafi verið í kringum 1,2 gráðum hærra en meðalhitastig áranna 1850-1900. Aðeins árið 2016 hefur verið hlýrra, en áratugurinn 2011-2020 er sá hlýjasti sem mælst hefur.

Styrkur gróðurhúsalofttegunda í andrúmslofti jarðar hefur aukist það sem af er ári þrátt fyrir spár um minni losun vegna lokunaraðgerða tengdum COVID-19.

Antonio Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, hélt ræðu við Columbia-háskólann í New York þar sem hann sagði ástand jarðarinnar vera í molum,“ og „mannkynið er í stríði við náttúruna. Þetta er sjálfsvígshegðun.“

Þá sagði Guterres að árleg dauðsföll vegna loft- og vatnsmengunar væru um níu milljónir manna. Hann hvatti leiðtoga heimsins til að beita sér fyrir því að ná markmiðum Parísarsáttmálans.

Staðfestar tölur frá stofnuninni verða birtar í mars á næsta ári.