Stjórnvöld í Nýja Sjálandi hafa ákveðið að herða vopnalöggjöfina þar í landi stórlega. Til stendur að banna allar gerðir hríðskotariffla og hálfsjálfvirkra skotvopna, sambærileg þeim sem notuð voru í árás á tvær moskur í síðustu viku. Ný löggjöf um skotvopn tekur gildi eftir nokkrar vikur. AP-fréttastofan greinir frá.

Jacinda Ardern, forsætisráðherra Nýja Sjáland, greindi frá þessu í morgun, tæpri viku eftir að fimmtíu létu lífið í árás á tvær moskur þar í landi. „Saga okkar er breytt að eilífu. Nú, breytast lögin líka,“ sagði Ardern á blaðamannafundi í morgun. 

Gert er ráð fyrir því að löggjöfin taki gildi ekki síðar en 11. apríl næst komandi, en þrátt fyrir það hefur bráðabirgðarreglugerð tekið gildi sem hindrar það að hægt sé að festa kaup á slíkum skotvopnum. Þetta er gert til þess að ekki sé hægt að safna miklu magni af skotvopnunum þar til löggjöfin tekur gildi.

Forsætisráðherrann sagði jafnframt að eigendur slíkra skotvopna muni fá ráðrúm til þess að skila inn vopnum sínum og mun nýsjálenska ríkið greiða fyrir þau.