Volkswagen svifti hulunni af nýrri kynslóð Touareg jeppa fyrirtækisins í dag. Er þetta þriðja kynslóð jeppans og hefur hann nú lengst um 77 mm, er 44 mm breiðari en 7 mm lægri og með talsvert aukið innanrými. Þrátt fyrir stærðaraukninguna hefur bíllinn lést um 106 kíló á milli kynslóða og er nú mikið af áli notað við smíði hans sem og aukin hlutfalls hástyrktarstáls. Að sögn Volkswagen manna slær nýr Touareg hátt uppí lúxusbílaflokk, svo vel er bíllinn útbúinn og hlaðinn góðgætum. Bíllinn er byggður á sama MLB undirvagni og Audi Q7, Porsche Cayenne og Lamborghini Urus jepparnir. 

Mjög miklar útlitsbreytingar eru á bílnum og hann nánast ekki þekkjanlegur frá fyrri kynslóð. Öllu heldur er hægt að finna líkindi með nýja Audi Q7 bílnum. Framhlutinn fær þó sitthvað frá nýjum Arteon stóra fólksbíl Volkswagen. Þeir Volkswagen menn segja að LED aðalljósin, sem eru af Matrix-gerð, séu ein þau allra bestu í bransanum. Það eru einar 128 LED perur í hvoru aðalljósi og með þeim sé hægt að gera dimmustu nótt sem dag.

Grunngerð Touareg fær 18 tommu álfelgur, en sú allra flottasta og dýrasta fær grimmflottar 21 tommu felgur. Ekkert minna en 15 tommu aðgerðaskjár er á mælaborðinu og bakvið stýrið er annar 12 tommu. Hægt er að fá Touareg með stýringu á öllum fjórum hjólunum, sem og 730 watta hljóðkerfi með 14 Dynaudio hátölurum og stærst glerþak sem sést hefur í Volkswagen bíl, en fyrir slíkan aukabúnað þarf að borga aðeins meira. Tvær útfærslur 3,0 lítra V6 dísilvélar eru í boði, 231 og 286 hestafla. Í haust kemur svo V6 bensínvél, 340 hestafla og á toppnum stendur svo V8 4,0 lítra dísilvél sem skilar 421 hestöflum til allra hjólanna. Síðar kemur svo Plug-In-Hybrid aflrás sem skrifuð er fyrir 367 hestöflum og verður sú útfærsla bílsins fyrst kynnt í Kína. Fyrri tvær kynslóðir Touareg seldust í nærri 1 milljón eintaka og því verður stutt að bíða þess að sú milljón fyllist.