Margir Íslendingar muna eftir Musso jeppanum frá SsangYong sem seldist býsna vel hér á landi og sést enn á götunum. SsangYong sýnir nú nýjan pallbíl á bílasýningunni í Genf sem koma mun á göturnar í sumar. Hann mun fá nafnið Musso og því mun þetta kunna nafn bíls frá SsangYong ekki deyja í bráð. Þessi pallbíll er byggður á grind og því ætti að vera hægðarleikur að breyta honum og hækka að vild. SsangYong er eini bílaframleiðandi heims sem smíðar bara jeppa og jepplinga og ætti því að hitta naglann á höfuðið á tímum mikillar eftirspurnar eftir slíkum bílum. SsangYong segir að nýr Musso pallbíll sé stífari en allir keppinautar hans, en samt sé þyngd bílsins lítil. Bíllinn kemur með 178 hestafla dísilvél sem togar 400 Nm svo þarna ætti að vera kominn duglegur vinnuhestur. 

Hann mun fást með bæði 6 gíra beinskiptingu og 6 gíra Aisin sjálfskiptingu sem finna má í mörgum bílgerðum annarra bílaframleiðenda. Bíllinn er að sögn þeirra SsangYong manna vel búinn að innan og kemur með Nappa leðursætum í sinni flottustu útfærslu, 8 tommu aðgerðaskjá, Bluetooth tengingu, Apple CarPlay, Andriot Auto og Wi-Fi tengingum. Bíllinn er með sæti fyrir 5, burðargetan á pallinum er eitt tonn og hann getur dregið 3,5 tonna aftanívagn. Duglegur bíll þar á ferð. Ekki er ljóst á hvaða verði bíllinn verður seldur en vonandi skilar hann sér til landsins fljótlega í sumar og þá í sýningarsali Bílabúðar Benna.