Glænýr Opel Crossland X hefur verið mjög vinsæll frá því hann var frumsýndur hér á landi fyrir tveimur vikum í nýjum sýningarsal Opel og SSangYoung hjá Bílabúð Benna. Opel Crossland X er nú uppseldur hjá umboðinu og mikið frátekið í næstu sending sem er að koma nú í mars. Bíllinn er á frumsýningartilboði um þessar mundir samkvæmt upplýsingum frá Bílabúð Benna og þeir sem panta bíl nú geta notfært sér frumsýningarafsláttinn þrátt fyrir að fá hann afhentan á næstu vikum. 

Opel Crossland X er vel búinn nútíma tæknibúnaði sem hægt er að sérsníða að lífsstíl hvers og eins. Crossland X hentar vel í mörgum aðstæðum þökk sé fjölhæfri hönnun, nýsköpun og þægilegri stærð. Bílinn er hægt að fá með hátæknilegum LED AFL ljósabúnaði eins og þeim sem þegar fæst í Opel Astra og Insignia. Opel Crossland X var valinn öruggasti bíllinn í sínum flokki í Evrópu á dögunum. Bíllinn er hlaðinn öryggisbúnaði og má þar nefna bakkmyndavél með mjög víðu sjónarhorni, sjálfvirkum búnaði til að leggja bílnum í stæði, radarsjón sem getur lesið yfirborðsmerkingar á vegi og vegaskilti og sjálfvirkri neyðarhemlun. Auk þess er hann með kerfi sem varar ökumann við ef hann syfjar í akstri.