Mazda framleiðir bæði CX-3 og CX-5 jepplingana sem seljast mjög vel um allan heim, en sífelldur þorsti bílkaupenda eftir jepplingum hefur fengið Mazda til að bjóða enn einn jepplinginn og verður hann kynntur almenningi á bílasýningunni í Genf, sem hefst eftir 3 vikur. Mazda hefur ekki látið mikið uppi um þennan bíl, en aðeins sent frá sér þessa mynd af afturenda hans. Reyndar gæti þessi jepplingur verið sá sami eða lítið breyttur jepplingur sem Mazda hefur einungis boðið í Kína undanfarið og var sýndur á Bejing Motor Show árið 2016. Sá bíll er með afturhallandi coupe-lagi. 

Mazda væri þó ekki að kynna þennan nýja jeppling á bílasýningunni í Genf ef ekki stæði til að bjóða hann í Evrópu, en ekki liggur ljóst fyrir hvort hann verður einnig í boði í Bandaríkjunum. Bíllinn mun sitja á Skyactive-Vehicle undirvagninum og verða með Skyactive vélum af nýjustu og eyðslugrennstu gerð. Þessar Skyactive vélar þykja algjört undraverk, en Mazda hefur tekist að búa til með þeim öflugar bensínvélar með eyðslutölum dísilvéla með hjálp aukinnar þjöppunar. Að auki menga þær mjög lítið.