Fjarskiptafyrirtækið Nova hefur hafið sína þriðju herferð á síðustu tveimur árum sem snýr að geðrækt. Þar má nefna Vertu á staðnum og Allir úr.

Nýjasta herferðin kallast Þú fyrir þig og býður Nova viðskiptavinum sínum upp á 2 fyrir 1 af sálfræðiþjónustu, sem er hægt að nálgast í Nova appinu.

“Ástæða þess að við tölum um geðrækt er að neikvætt fótspor fyrirtækisins tengist umhverfinu minna en það fótspor sem samfélagsmiðlar, óraunhæfar staðalímyndir, stanslaust skrun og ofnotkun á skjátíma veldur. Við höfum dregið áfram snjallvæðinguna og viljum axla ábyrgð með því að nýta krafta Nova í að vekja athygli á þessum málum,” segir Katrín Aagestad markaðsstjóri Nova og bætir við að nú sé verið að opna umræðuna um sjálfsást og glansmyndir á samfélagsmiðlum, þar sem allir sýni eingöngu sínar bestu hliðar.

„Við viljum vekja athygli á hversdagslegri geðrækt og höfum þar að leiðandi ákveðið að bjóða viðskiptavinum upp á niðurgreiðslu á rafrænum sálfræðitímum hjá Mín líðan, en stofan sérhæfir sig í viðtölum á netinu. Þannig er þjónustan aðgengileg öllum, hvar sem er og óháð búsetu. Við höfum sett þennan valkost inn í 2 fyrir 1 í Nova appinu, þar sem viðskiptavinir geta nálgast þessa þjónustu á sama hátt og þau sækja sér afslátt í bíó, út að borða eða í spa. Að panta sér tíma í geðrækt á að vera alveg jafn sjálfsagt og að skrá sig í tíma í ræktinni,“ segir Katrín.

Aðspurð segir Katrín grunnin að því að Nova sé að vekja athygli á geðrækt í herferðum sínum sé að þau séu stórt fyrirtæki með stóran plattform sem þau vilja nýta til góðs.

„Tæknin er að þróast hratt og á nokkrum árum er kominn nýr heimur af samfélagsmiðlum sem við erum öll reyna að fóta okkur í. Bæði tæknin og tækin eiga að einfalda okkur lífið á margan hátt, og er það því okkar ábyrgð að vekja athygli á þessu og kenna fólki að nota tæknina á sem jákvæðastan hátt,.“ segir hún.

Jákvæð þróun í stafrænum heimi

„Mikið hefur verið talað um neikvæðar hliðar internetsins, en ein af jákvæðu hliðum þess er að hægt sé sækja sér sálfræðiþjónustu á netinu óháð búsetu. Með herferðinni erum við að elska okkur fyrir okkur, og er þetta því okkur öllum hjartans mál. Það hefur sennilega aldrei verið eins mikilvægt og nú að huga sjálfsrækt,” segir Katrín.

„Sálfræðitímarnir eru 50 mínútur og kosta 7990 krónur. Að auki er verið að gæta að því að það sé ekki langur biðtími fyrir fólk.“

Aðspurð segir Katrín að um 1500 tímar verði í boði og vonast hún til að sem flestir nýti sér tilboðið.