Tíðni ýmissa fylgikvilla öndunarfærasýkinga hefur minnkað mikið frá upphafi kórónaveirufaraldursins.

Að sögn Óskars S. Reykdalssonar, forstjóra Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, er það ein af mörgum áhugaverðum afleiðingum faraldursins.

„Það má hiklaust rekja til þeirra sóttvarnaráðstafana sem gripið hefur verið til, til að sporna við kórónaveirunni,“ segir Óskar.

Þá má nefna að notkun sýklalyfja hefur minnkað umtalsvert auk þess sem dauðsföllum hefur fækkað. Þó veki ugg að heimsóknum á heilsugæslustöðvar vegna annarra sjúkdóma en COVID-19 fækki.

„Við höfum talsverðar áhyggjur af því og viljum ítreka enn á ný að fólk verður að leita sér aðstoðar ef það kennir sér meins,“ segir Óskar. Hann nefnir að í nágrannalöndunum hafi tíðni þess að lungnakrabbamein uppgötvist lækkað. „Það er ólíklegt að tíðnin hafi dregist saman. Heldur frekar að fólk sé ekki að fara eins mikið í greiningar.“

Óskar segir mikinn viðbúnað á heilsugæslum til þess að bregðast við COVID-19. Því ættu allir að vera öruggir þar. Nýtt fyrirkomulag sýnatöku hefjist á næstu dögum.

„Þá munu sýnatökurnar fara fram við Suðurlandsbraut 32 og þar mun skilvirknin aukast, sem og sjálfvirknin. Til dæmis munu sjúklingar fá sjálfvirk skilaboð um niðurstöðuna. Einnig mun það létta verulega á heilsugæslustöðvunum og tryggja þannig að starfsemin þar komist í sem eðlilegast horf,“ segir Óskar.