Í kostaðri aug­lýsingu á Face­book mátti sjá mynd af konu halda á þúsund ís­lenskra króna. Sú kona var í raun Hulda Hjálmars­dóttir, fram­kvæmda­stjóri Krafts – stuðnings­fé­lags fyrir ungt fólk sem greinst hefur með krabba­mein og að­stand­endur, og peningarnir á myndinni styrkur til Krafts.

Peningarnir á myndinni voru gjöf frá konu sem greinst hafði með krabba­mein þegar hún var ung. Hún á­kvað í til­efni af 80 ára af­mæli síns að af­þakka gjafir og biðja þess í stað vini og vanda­menn að styrkja Kraft. Myndin var birt á heima­síðu Krafts í nóvember 2017.

„Í gær fæ ég skila­boð frá ein­hverjum Face­book vinum mínum þar sem þeir eru að benda mér á að það sé verið að nota þessa mynd til þess að fólk smelli á og fái ein­hverja svona fjár­mála­ráð­gjöf til að verða milljóna­mæringar,“ segir Hulda í sam­tali við Frétta­blaðið.

Hér má sjá skjáskot af umræddri auglýsingu.

Búið að taka aug­lýsinguna úr um­ferð

Hún segir að vinur hennar hafi smellt á aug­lýsinguna og hafi þá fengið til­kynningu um að hann væri kominn upp í 575 þúsund krónur og þyrfti bara að milli­færa 50 þúsund til Nígeríu til að fá peninginn.

Hulda hvatti Face­book vini sína til að til­kynna færsluna. Hún hafi ekki sjálf getað gert það þar sem aug­lýsingin væri ekki að koma upp hjá sér. „Síðan fékk ég það bara stað­fest áðan frá Face­book að þeir væru búnir að taka aug­lýsinguna úr um­ferð,“ segir Hulda.