Fáar eða engar jurtir kljúfa íslensku þjóðina jafn mikið og lúpínan gerir. Sumir dást að fagurbláum breiðum hennar og benda á að hún bindur jarðveginn og kemur í veg fyrir að Ísland fjúki út á Atlantshafið. Hjá öðrum springa æðar í enninu við tilhugsunina um þennan arfa sem hrindir öðrum jurtum úr vegi og vilja helst ráðast gegn honum með eitri og eldi.

Nú hafa nokkrir kennarar og nemendur við Háskóla Íslands lagst í rannsóknir á nýtingu lúpínunnar og hafa þegar hannað vöru sem brátt verður gerð opinber.

Braga Stefaný Mileris, leiðbeinandi og doktorsnemi í matvælafræði, segir að varan sé nú í prófunum en þróun hennar var styrkt af Nýsköpunarsjóði námsmanna. Rannsóknir munu halda áfram og að verkefninu standa einnig Björn Viðar Aðalbjörnsson lektor og nemarnir Kristín Elísabet Halldórsdóttir og Axel Sigurðsson.

Braga segir að erlendar rannsóknir bendi til þess að það sé mjög mikið af lífvirkum efnum í íslensku lúpínunni en hafa beri í huga að hún er af öðrum meiði og bitrari en hin sæta lúpína sem sést víða erlendis. Til þess að hægt sé að nota hana í matvæli verði að vera hægt að sigta bitruna frá. En lífvirku efnin benda til þess að hægt sé að nota hana í lyfjaiðnaði svo dæmi sé tekið.

„Lúpínan er ekki nýtt hérna á Íslandi en úti á Spáni er hægt að kaupa lúpínubaunir í venjulegum stórmörkuðum rétt eins og til dæmis kjúklingabaunir,“ segir Braga. Hún segir að í upphafi hafi hugsunin verið að þróa dýrafóður úr íslensku lúpínunni, því það sé auðveldari verkun. En síðar hafi verið farið að líta til manneldis einnig.

Möguleikarnir eru miklir og aðstæðurnar góðar. Lúpínan er harðgerð planta sem vex mjög auðveldlega í íslensku landslagi og loftslagi. „Lúpínan vex í jarðvegi sem ekkert annað þrífst í. Hérna sem ég bý sé ég hana vaxa í möl,“ segir Braga. Hún segist gera sér grein fyrir hversu umdeild lúpínan er en sjálf skipar hún sér í flokk aðdáenda og finnst hún ljómandi falleg.

Braga gerir ráð fyrir að efnagreina lúpínuna í þaula næstu tvö árin. Á mismunandi vaxtarskeiðum og vaxtarhæðum. Þó að Braga sé ekki orðin þrítug að aldri er þetta ekki í fyrsta sinn sem hún kemur að vöruþróun en árið 2018 þróaði hún vörulínu af loftpoppuðu byggi í samstarfi við Hildi Guðrúnu Baldursdóttur, þegar þær voru við matvælafræðinám.

Braga Mileris