Sala á innsúlín hefur minnkað frá árinu 2017 en á sama tímabili hefur orðið aukning í sölu á blóðsykurslækkandi lyfjum.

Þetta kemur fram í svari Lyfjastofnunar við fyrirspurn Fréttablaðsins.

Í gær voru liðin hundrað ár frá því að insúlín var í fyrsta skipti gefið með sprautu til að vinna gegn sykursýki, sem var á þeim tíma banvænn sjúkdómur.

Sykursýki er enn alvarlegt vandamál; 422 milljónir þjást af sykursýki á heimsvísu og um 1,5 milljónir dauðsfalla má rekja beint til sykursýki á hverju ári samkvæmt Alþjóðaheilbrigðistofnuninni. Fjöldi fólks með sykursýki 2 á Íslandi var um 10.600 manns árið 2018 og hafði fjölgað úr um 4.200 frá árinu 2005.

Þá vekur athygli að þó sykursjúkum fjölgi hefur sala innsúlíns og hliðstæðum þess ekki hækkað síðustu árin. Þvert á móti hefur sala lækkað frá árinu 2017 úr 13,377 meðalmeðferðaskömmtum á hverja þúsund íbúa á dag niður í 12,014 meðalmeðferðaskammta á dag árið 2021.

Sala lyfja sem innihalda insúlín hefur minnkað frá 2018.
Mynd: Lyfjastofnun

Hins vegar hefur orðið aukning á sölu lyfja sem innihalda blóðsykurslækkandi lyf samkvæmt Lyfjastofnun. Árið 2017 voru það 36,116 meðalmeðferðaskammtar á þúsund íbúa á dag en árið 2021 voru það 46,334 skammtar.

Sala lyfja sem innihalda blóðsykurslækkandi lyf eykst með árunum.
Mynd: Lyfjastofnun

Í gröfunum tveimur hér fyrir ofan er salan sýnd í einingunni DDD/þúsund íbúa/per dag. DDD stendur fyrir „defined daily dose“, en það endurspeglar skilgreindan dagskammt hvers lyfs, en hann er ákvarðaður af WHO. Skilgreindur dagskammtur (e. Defined Daily Dose/DDD): Er meðalmeðferðar­skammtur á dag fyrir tiltekið lyf, notað við algengustu ábendingu þess í full­orðnum.