Búist er við því að lyfjaeftirlit og sóttvarnaeftirlit Bandaríkjann hætti bólusetningum tímabundið með bóluefni Janssen gegn COVID-19, sem framleitt er af þarlenda lyfjafyrirtækinu Johnson & Johnson, vegna sex tilfella blóðtappa sem greindust hjá fólki sem bólusett var með efninu. Stofnanirnar hvetja yfirvöld í ríkjum landsins til að stöðva einnig notkun þess meðan unnið er að rannsókn á málinu.
Öll hinna sex tilfella voru hjá konum á aldrinum 18 til 48 ára. Ein þeirra lést og er kona í Nebraska á sjúkrahúsi og ástand hennar alvarlegt. Konurnar fengu allar sjaldgæfan kvilla sem meðal annars getur leitt til blóðtappa. Svipuð tilfelli hafa komið upp hjá fólki sem bólusett er með bóluefni AstraZeneca, einkum konum. Bóluefni AstraZeneca hefur ekki fengið markaðsleyfi vestanhafs.
Lyfjastofnun Evrópu hafa einnig borist nokkrar tilkynningar um blóðtappa eftir bólusetningu með bóluefni Janssen. Hún hefur nú hafið rannsókn á málinu.
Fyrstu skammtarnir af bóluefninu eru væntanlegir hingað til lands á morgun. Það er ólíkt bóluefnum AstraZeneca, Pfizer og Moderna sem nú eru í notkun hér því einungis einn skammt þarf að gefa af því til að veita vernd gegn COVID-19.
Tæplega sjö milljónir hafa verið bólusett með bóluefni Janssen í Bandaríkjunum og níu milljónir skammta til viðbótar komnir til ríkja víðs vegar um landið.
„Við mælum með að notkun bóluefnisins verði stöðvuð af varúðarástæðum. Enn sem komið er virðast þessar aukaverkanir vera afar fátíðar,“ segir í yfirlýsingu sóttvarnaeftirlits Bandaríkjanna. Einungis er um ráðleggingu að ræða til ríkjanna en vonast er til að þau fylgi í fótspor alríkisstjórnarinnar en gert er ráð fyrir því að bólusetningum með efninu verði hætt, í það minnsta um tíma, meðan tilfellin eru könnuð og hugsanleg tengsl þeirra við bóluefnið.
Nú þegar hafa 15 ríki ákveðið að ákveðið að hætta bólusetningu með bóluefni Janssen, í það minnsta tímabundið. Meðal þeirra eru New York, Maryland og Texas.
Gæti haft mikil áhrif á bólusetningarherferð
Fram undan er ítarleg rannsókn á vegum lyfjaeftirlitsins og sóttvarnastofnunarinnar á mögulegum aukaverkunum bóluefnis Janssen, þar sem verður metið hvort halda skuli bólusetningum með því áfram á öllum fullorðnum eða stöðva hana.
Fari svo að notkun bóluefnisins verði stöðvuð er ljóst að hún mun hafa umtalsverð áhrif bólusetningarherferð bandaríska yfirvalda gegn COVID-19 á sama tíma og mörg ríki standa fyrir vaxandi fjölda smita og reyna að sannfæra íbúa sína um að bóluefni séu örugg. Gætt hefur nokkurar tregðu meðal Bandaríkjamanna í garð bólusetninga.
Megnið af bóluefnum sem notuð eru vestanhafs eru frá Pfizer og Moderna, sem samanlagt leggja bandarískum yfirvöldum til 23 milljónir skammta í viku hverri. Enn sem komið er virðast þau örugg og ekki orðið vart við alvarlegar aukaverkanir af notkun þeirra. Þrátt fyrir að mun færri skammtar hafi borist af bóluefni Janssen gegnir það stóru hlutverki í bólusetningaráætlunum landsins, en stefnt er að því að bólusetja alla fullorðna í landinu fyrir lok maí.
