Notkun þunglyndislyfja er 38 prósentum meiri nú en hún var árið 2012. Þetta kemur fram í svörum Willums Þórs Þórssonar heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Evu Sjafnar Helgadóttur, varaþingmanns Pírata.

Almennt eykst notkun þunglyndislyfja með aldri. Það er hins vegar aukning í yngri aldurshópunum sem ýtir heildartölunni upp.

Notkun barna hefur aukist um 90,1 prósent og ungs fólks, það er 18 til 39 ára, um 62 prósent. Aukningin hjá fólki á miðjum aldri, 40 til 66 ára, er 25,4 prósent en aðeins 7,8 prósent hjá eldra fólki, 67 til 69 ára.

Þó að dregið hafi saman með aldurshópunum er notkun eldra fólks enn þá fimmfalt meiri en barna. Mikill munur er á þunglyndislyfjanotkun kynjanna og nota konur nærri því tvöfalt meira. Þessi munur hefur aukist á undanförnum áratug. Notkun kvenna hefur aukist um 42,2 prósent en notkun karla 33,9 prósent.

Athygli vekur að nokkur munur mælist eftir landshlutum. Mesta notkunin er á Norðurlandi og Austurlandi en áberandi minnsta notkunin á Suðurnesjum. Er munurinn tæplega 23 prósent milli Norðurlands og Suðurnesja.