Tæplega 12 prósent drengja og rúmlega 5 prósent stúlkna á aldrinum 6 til 16 ára notast við svokölluð hegðunarlyf, sem notuð eru til meðhöndlunar á einkennum athyglisbrests með ofvirkni (ADHD). Hlutfall drengja sem notast við slík lyf hefur 3,6-faldast frá árinu 2003.

Þetta kemur fram í svari Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Ingu Sæland þingmanns, en hún spurði út í ávísun hegðunarlyfja til barna á grunnskólaaldri.

Ráðherra fól Embætti Landlæknis (EL) að fjalla um fyrirspurnina, en í svarinu kemur fram að um 1250 drengir fengu ávísun á örvandi hegðunarlyfjum árið 2003. Á þeim tíma gerði það tæplega 5 prósent drengja á grunnskólaaldri. Á síðasta ári var fjöldi drengja sem fengu slík lyf ávísuð orðinn tæplega 3000, og hlutfallið rúmlega 11,6 prósent.

Tafla EL um fjölda grunnskólabarna sem fá ávísuð hegðunarlyf.

Ef litið er til stúlkna fengu tæplega 350 stúlkur ávísað slík lyf árið 2003, eða um 1,5 prósent. Í fyrra var fjöldinn kominn í tæplega 1300 stúlkur eða um 5,3 prósent.

Í svari EL, sem heilbrigðisráðherra gerir að sínu, kemur jafnframt fram fjöldi ávísana á hverja 1000 drengi og hverjar 1000 stúlkur á sama tímabili. Árið 2003 fengu hvert þúsund drengja á grunnskólaaldri ávísað tæplega 29 dagskömmtum á dag. Í fyrra var sama viðmið orðið 77 dagskammtar. Í upphafi tímabilsins var þetta viðmið 7,6 dagskammtar fyrir stúlkur en í fyrra var það komið í 30,6 ávísanir.

Tafla EL um ávísanir hegðunarlyfja til barna á grunnskólaaldri.

Svar heilbrigðisráðherra má sjá í heild sinni hér.