Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra hyggst breyta frumvarpi sínu um stjórn Landspítala á þá leið að notendur fái aðkomu. Þetta kemur fram í svari ráðuneytisins til Fréttablaðsins.

Eins og Fréttablaðið greindi frá um miðjan janúar vill MND félagið að sjúklingasamtök fái sæti í stjórninni. Formaðurinn, Guðjón Sigurðsson, sagði stjórnarsetu fela í sér eðlilegt samráð við notendurna. Þeir hefðu ríka hagsmuni af því að hafa um að segja hvernig þjónustan ætti að vera. Undir þetta tók Grímur Atlason, framkvæmdastjóri Geðhjálpar, sem sagði mikilvægt að geðsjúkir kæmu að heilbrigðisþjónustu við geðsjúka. Innsýn þeirra væri önnur.

Fleiri samtök hafa bæst í hóp þeirra sem telja eðlilegt að notendur fái sæti í stjórn. Meðal annars Öryrkjabandalagið og Krabbameinsfélagið. En einnig félög starfsstétta í heilbrigðisþjónustu, bæði sjúkraliðar og hjúkrunarfræðingar.

Í svari heilbrigðisráðuneytisins kemur fram að eftir að frumvarpsdrögin hafi verið birt hafi ábendingar komið fram um að raddir sjúklinga eða notenda þjónustunnar þurfi að heyrast. Ráðherra taki undir þessi sjónarmið og verið sé að vinna að breytingum á frumvarpinu með hliðsjón af þessu.