Einstaklingar sem nota HIV-lyf í forvarnarskyni, HIV-jákvæðir einstaklingar sem greinst hafa með lekanda eða sárasótt síðastliðna 18 mánuði eða eru metnir í aukinni áhættu og starfsfólk göngudeildar húð- og kynsjúkdóma Landspítala sem sér um sýnatökur vegna kynsjúkdóma, eru þeir hópar sem eiga kost á að fá bólusetningu gegn apabólu.

Þá geta einstaklingar sem orðið hafa útsettir fyrir sjúkdómnum fengið bóluefni. Gagnsemi slíkra bólusetninga er, samkvæmt Guðrúnu Aspelund sóttvarnalækni, mest ef bólusett er innan fjögurra sólarhringa frá fyrstu útsetningu en bólusetning má þó fara fram allt að fjórtán sólarhringum síðar.

Útsettir einstaklingar eru heimilisfólk og rekkjunautar einstaklinga sem greinast með apabólu sem ekki hafa sjálf einkenni, teikn eða sögu um apabólusýkingu. Einnig heilbrigðisstarfsfólk sem dvelur í lokuðu rými með sjúklingi með apabólu án grímu í fjórar klukkustundir eða lengur og starfsfólk rannsóknarstofa sem verður fyrir útsetningu vegna óhapps við móttöku eða vinnslu sýnis sem mengað er af apabólu.

Bólusetning gegn apabólu stendur nú yfir hér á landi og hafa tæplega 500 manns fengið boð í bólusetningu. Um 150 hafa verið bólusettir. Gefa þarf tvo skammta af bóluefni með fjögurra vikna millibili.

Tilfellum apabólu hefur farið fækkandi í Evrópu undanfarið en sjúkdómurinn hefur aðallega greinst hjá karlmönnum á aldrinum 18-50 ár. Samkvæmt Embætti landlæknis hafa sjúkrahúsinnlagnir verið fáar og dauðsföll sjaldgæf. Alls hafa 14 manns greinst með apabólu hérlendis og allir hafa verið í einangrun utan sjúkrahúss.