Íslendingur sem búsettur er í Lundúnum segir breskan almenning vera í óþægilegri stöðu vegna hækkunar á verði á rafmagni. Hún segist nota peninga af sparnaðarreikningnum til að kynda húsið.
Orkuverð hefur víða hækkað í heiminum en líklega hefur það hvergi hækkað jafnmikið og í Bretlandi. Bretar hafa þurft að grípa til örþrifaráða til þess að ná að halda sér og húsum sínum heitum.
„Þetta er búin að vera rosalega mikil hækkun á svo stuttum tíma,“ segir Sigríður Sigurðardóttir, tréskurðarkona og formaður Íslendingafélagsins í Lundúnum. Hún hefur búið þar síðan 2008 og á mann og tvö börn.
„Maður kyndir bara húsið og tekur af sparnaðarreikningnum á meðan það er eitthvað á honum, þetta er svolítið óþægileg staða,“ segir Sigríður en hún segir rafmagnsreikning sinn hafa fjórfaldast síðan í mars á þessu ári.

Í mars var venjulegur rafmagnsreikningur hjá henni 80 pund, um 14 þúsund krónur. Núna sé reikningurinn hins vegar kominn upp í 350 pund, eða um 60 þúsund krónur og möguleiki á að hann hækki enn frekar.
Sigríður segist reyna að vera ekki með þetta á heilanum. „Það er óþægilegt að hugsa til þess að kannski fer verðið ekki til baka. Hvort við séum bara að halda áfram upp í 100 þúsund krónur á mánuði, þetta er ógnvænlegt,“ segir hún.
Veðrið í Lundúnum hefur verið milt undanfarnar vikur og því segist Sigríður minna hafa fundið fyrir aukinni notkun á rafmagni, en það breytist þó þegar fer að kólna. „Það eru líklegast hærri reikningar á leiðinni í janúar og febrúar, þegar það er alvöru kuldi,“ segir Sigríður.
Hún segir fólk grípa til ýmissa ráða til að spara rafmagn og hita, eins og styttri sturtur og að troða álpappír bak við ofna til að dreifa hitanum betur. „Ég er ekki nógu dugleg að kynna mér nýjustu fræðin í hitun á húsum,“ segir hún.
„Ég er svolítill Íslendingur,“ segir Sigríður og segist eiga erfitt með að þurfa að spara vatn og hita, enda er það ekki venjan á flestum heimilum á Íslandi. „Ég reyni að hafa þetta á bak við eyrað en ég er svolítið vanaföst. Þetta er alveg hræðilega mikil eyðsla á peningum og orku.“
Sigríður grínast og segir Bretana finna meira fyrir þessu. „Eins og til dæmis að hita vatnið í katlinum, þau drekka svo mikið te að núna er farið að kosta ákveðið mikið að gera bolla af tei,“ segir hún.