Ís­lendingur sem bú­settur er í Lundúnum segir breskan al­menning vera í ó­þægi­legri stöðu vegna hækkunar á verði á raf­magni. Hún segist nota peninga af sparnaðar­reikningnum til að kynda húsið.

Orku­verð hefur víða hækkað í heiminum en lík­lega hefur það hvergi hækkað jafn­mikið og í Bret­landi. Bretar hafa þurft að grípa til ör­þrifa­ráða til þess að ná að halda sér og húsum sínum heitum.

„Þetta er búin að vera rosa­lega mikil hækkun á svo stuttum tíma,“ segir Sig­ríður Sigurðar­dóttir, tré­skurðar­kona og for­maður Ís­lendinga­fé­lagsins í Lundúnum. Hún hefur búið þar síðan 2008 og á mann og tvö börn.

„Maður kyndir bara húsið og tekur af sparnaðar­reikningnum á meðan það er eitt­hvað á honum, þetta er svo­lítið ó­þægi­leg staða,“ segir Sig­ríður en hún segir raf­magns­reikning sinn hafa fjór­faldast síðan í mars á þessu ári.

Sigríður Sigurðardóttir, formaður Íslendingafélagsins í London.
Mynd/aðsend

Í mars var venju­legur raf­magns­reikningur hjá henni 80 pund, um 14 þúsund krónur. Núna sé reikningurinn hins vegar kominn upp í 350 pund, eða um 60 þúsund krónur og mögu­leiki á að hann hækki enn frekar.

Sig­ríður segist reyna að vera ekki með þetta á heilanum. „Það er ó­þægi­legt að hugsa til þess að kannski fer verðið ekki til baka. Hvort við séum bara að halda á­fram upp í 100 þúsund krónur á mánuði, þetta er ógn­væn­legt,“ segir hún.

Veðrið í Lundúnum hefur verið milt undan­farnar vikur og því segist Sig­ríður minna hafa fundið fyrir aukinni notkun á raf­magni, en það breytist þó þegar fer að kólna. „Það eru lík­legast hærri reikningar á leiðinni í janúar og febrúar, þegar það er al­vöru kuldi,“ segir Sig­ríður.

Hún segir fólk grípa til ýmissa ráða til að spara raf­magn og hita, eins og styttri sturtur og að troða ál­pappír bak við ofna til að dreifa hitanum betur. „Ég er ekki nógu dug­leg að kynna mér nýjustu fræðin í hitun á húsum,“ segir hún.

„Ég er svo­lítill Ís­lendingur,“ segir Sig­ríður og segist eiga erfitt með að þurfa að spara vatn og hita, enda er það ekki venjan á flestum heimilum á Ís­landi. „Ég reyni að hafa þetta á bak við eyrað en ég er svo­lítið vana­föst. Þetta er alveg hræði­lega mikil eyðsla á peningum og orku.“

Sig­ríður grínast og segir Bretana finna meira fyrir þessu. „Eins og til dæmis að hita vatnið í katlinum, þau drekka svo mikið te að núna er farið að kosta á­kveðið mikið að gera bolla af tei,“ segir hún.