Aðalheiður Ámundadóttir
aa@frettabladid.is
Laugardagur 9. apríl 2022
14.00 GMT

Gísli Guð­jóns­son, prófessor í réttar­sál­fræði, veitir sér­fræði­á­lit í máli Melissu Lucio, banda­rískrar konu af spænskum upp­runa, sem var dæmd til dauða fyrir tólf árum og taka á af lífi í Texas í lok þessa mánaðar.

Gísli er er sér­fræðingur í klínískri sál­fræði og réttar­sál­fræði. Hann er prófessor emeritus við King’s College í London og prófessor við Há­skólann í Reykja­vík.

Gísli er einn fremsti sér­fræðingur heims á sviði á­reiðan­leika játninga og hefur 40 ára reynslu af sál­fræði­legu mati á fram­burði vitna, þol­enda og sak­borninga í yfir 1.000 málum víða um heim.

Gísli hefur gefið vitnis­burði í fjölda mikil­vægra saka­mála þar sem sak­fellingar­dómum yfir sak­lausu fólki hefur verið hnekkt. Að­spurður segir Gísli að hætt hafi verið við dauða­refsingar í þremur banda­rískum málum eftir hans að­komu.

Í máli Melissu byggir Gísli á módeli sem hann hefur þróað um á­hættu­þætti sem haft geta á­hrif á á­reiðan­leika játninga. Módelið er meðal annars byggt á að­ferð sem Gísli notaði til að meta játningar í Guð­mundar- og Geir­finns­málum, en fimm hinna dóm­felldu voru sýknaðir árið 2018, einkum á grund­velli sér­fræði­á­lita Gísla.

Á­falla­saga fjór­tán barna móður

Mál Melissu er meðal al­var­legustu mála sem Gísli hefur séð á ferli sínum og hann full­yrðir að Texas sé að fara að drepa sak­lausa konu.

Melissa er 53 ára móðir fjór­tán barna. Þegar hún var hand­tekin voru börnin tólf en hún bar þá tví­bura undir belti.

Melissa varð fyrir of­beldi af hálfu stjúp­föður síns í barn­æsku og flúði að heiman og giftist að­eins sex­tán ára gömul. Hún eignaðist fimm börn með manninum sínum en hann yfir­gaf hana þegar hún var 24 ára gömul. Þegar hún var hand­tekin árið 2007 bjó hún á­samt sam­býlis­manni og sjö börnum þeirra auk tveggja barna frá fyrra hjóna­bandi, í sárri fá­tækt í Texas.

Úr fjölskyldusafni. Birt með leyfi The Innocence project.

Í febrúar 2007 lést tveggja ára dóttir Melissu. Hún vaknaði ekki eftir síð­degis­lúrinn sinn. Böndin bárust strax að móður hennar, en barnið var marið víða um líkamann. Melissa var hand­tekin tveimur tímum eftir að bráðaliðar voru kallaðir að heimilinu vegna and­láts barnsins. Fimm lög­reglu­menn hófu strax yfir­heyrslu sem tók á bilinu fimm til sjö klukku­stundir.

Í yfirheyrslunni neitaði Melissa í­trekað að hafa lagt hendur á barnið og valdið dauða þess. Lög­reglu­mennirnir beittu miklum þrýstingi en hún hafði ekki lög­mann sér til halds og trausts. Að lokum gafst hún upp og sagði: „Ætli ég hafi ekki gert þetta þá, ég ber á­byrgð á þessu.“

Þessi orð Melissu voru túlkuð sem játning og árið 2008 sak­felldi kvið­dómur í Texas hana fyrir morð og dæmdi hana til dauða.

Til er myndband af allri yfirheyrslunni og eru brot af henni aðgengileg á internetinu:

Aldrei orðið uppvís að ofbeldi

Í á­frýjunum lög­manna Malissu til æðri dóm­stóla var lögð á­hersla á að meint játning hennar væri ó­á­reiðan­leg, enda hefðu yfir­heyrslur yfir henni ekki farið eðli­lega fram. Til að mynda hafði hún hvorki haft lög­mann né aðra að­stoð sér til halds og trausts meðan á yfir­heyrslunni stóð.

Þá hefði rann­sókn málsins og með­ferð þess fyrir dóm­stólum verið veru­lega á­bóta­vant.

Einnig var byggt á því að Melissa hafði aldrei orðið upp­vís að of­beldi og ítar­legar skýrslur af börnunum hennar leiddu ekki í ljós nein dæmi um of­beldi í garð barnanna.

Nokkur barnanna höfðu tveimur dögum áður en Mariah lést, séð hana detta niður brattar tröppur fyrir utan heimili þeirra og byggði vörn hennar meðal annars á því að fallið hefði getað or­sakað dauða hennar tveimur dögum síðar.

Til er mynd­band af skýrslu eins barnsins um fallið, en kvið­dómur fékk ekki að heyra vitnis­burð þess eða annarra barna Melissu.

Stiginn sem börn Melissu segja að Mariah hafi dottið niður tveimur dögum áður en hún dó.

Í einni á­frýjun náði mál­flutningur lög­manna Melissu í gegn. Al­ríkis­dóms­tóll í New York féllst á að hún hefði ekki notið stjórnar­skrár­varinna réttinda sinna til full­nægjandi máls­varnar. Yfir­lýsingar hennar í yfir­heyrslum væru helstu sönnunar­gögnin í málinu, en engin gögn í málinu sýndu fram á að barnið hefði verið drepið eða að Melissa hefði orðið upp­vís að of­beldi í garð barna sinna.

Ári síðar breytti þessi sami dóm­stóll niður­stöðu sinni á þeim for­sendum að hann hefði ekki lög­sögu í málinu. Þá var að­eins síðasta dóm­stigið eftir, en í októ­ber á síðasta ári synjaði Hæsti­réttur Banda­ríkjanna beiðni um að taka mál Melissu fyrir.

Sak­sóknarinn situr inni fyrir spillingu

Meðal þess sem fjöl­miðlar hafa fjallað um vestan­hafs eru pólitískir hags­munir héraðs­sak­sóknarans Armando Villa­lo­bos sem fékk mál Melissu á sitt borð. Hann var, líkt og aðrir sak­sóknarar í Banda­ríkjunum kosinn í em­bætti og var um þessar mundir að sækjast eftir endur­kjöri. Rétt áður en mál Melissu kom upp hafði grunaður morðingi sloppið við dóm og hafði mál hans vakið tölu­verða reiði í fylkinu.

Villa­lo­bos lagði strax mikla á­herslu á að Melissa yrði á­kærð fyrir morð af yfir­lögðu ráði, eina brotið sem heimilt er að refsa fyrir með dauða­dómi, í stað þess til dæmis að á­kæra fyrir mann­dráp af gá­leysi, van­rækslu eða annað barna­verndar­brot.

Villa­lo­bos situr nú af sér 13 ára fangelsis­dóm fyrir kúgunar- og mútu­brot.

Gísli steig inn þegar dag­setningin kom

Í febrúar síðast­liðnum var Melissu til­kynnt um af­töku­dag, 27. apríl 2022. Í kjöl­farið hófst lokaat­lagan við að bjarga lífi hennar með undir­búningi beiðni til ríkis­stjóra Texas um að stöðva af­tökuna.

Það eru samtökin The Innocence project sem standa að beiðninni, en það er nokkuð óvenjulegt að samtökin taki að sér mál eins og Melissu þar sem ekki er um DNA sönnunargögn að ræða.

Gísli var ráðinn sem sér­stakur sér­fræðingur starfs­hóps innan­ríkis­ráð­herra, til að meta á­reiðan­leika fram­burðar og játninga sak­borninganna í Guð­mundar- og Geir­finns­málum og eiga niður­stöður hans í málinu stærstan þátt í því að málin voru endu
GVA

Gísli er einn fremsti sérfræðingur heims á sviði áreiðanleika játninga og hefur 40 ára reynslu af sálfræðilegu mati á framburði vitna, þolenda og sakborninga í yfir 1.000 málum víða um heim.

„Þetta var með mjög stuttum fyrir­vara. Það var í febrúar að ég var beðinn að koma inn í málið,“ segir Gísli, en í sér­stakri beiðni til ríkis­stjóra Texas er farið fram á að af­tökunni verði frestað eða hún stöðvuð. Meðal lykil­gagna í beiðninni er sér­fræði­á­lit Gísla um að svör Melissu í yfir­heyrslunni beri öll ein­kenni falskrar játningar.

„Í máli Melissu notaði ég það sem ég hef þróað í tengslum við Guð­mundar- og Geir­finns­málin. Ég er með módel í þróun sem ég nota í þessa vinnslu,“ segir Gísli og skýrir módelið þannig að með því séu dregnir upp þeir á­hættu­þættir sem gefi til kynna hvort og hversu á­reiðan­leg játning er.

„Í máli Melissu notaði ég það sem ég hef þróað í tengslum við Guð­mundar- og Geir­finns­málin.“

„Það er í fyrsta lagi að líta á bak­grunn við­komandi, hans eða hennar for­sögu. Það er einn þátturinn og annar þáttur er í hvaða sam­hengi er verið að taka við­komandi til yfir­heyrslu. Í þriðja lagi þarf að rann­saka yfir­heyrslurnar sjálfar,“ segir Gísli, en í máli Melissu hafði hann mynd­band af allri yfir­heyrslunni. „Ég gat rann­sakað það og notað vissa að­ferða­fræði til að meta á­lagið sem kom fram, hvernig lög­reglu­mennirnir fimm höguðu sér, hvernig við­brögð hún sýndi og annað sem fram kemur á upp­tökunni.

Svo er fjórði þátturinn og það eru per­sónu­legir þættir sem varða ein­stak­linginn sjálfan. Það getur verið for­saga, of­beldi til dæmis. For­sagan skiptir miklu máli til að sjá hversu við­kvæmir ein­staklingar geta verið,“ segir Gísli, en í for­sögu Melissu er of­beldi sem hún varð fyrir bæði í æsku og í hjóna­bandi sem hún gekk í að­eins sex­tán ára gömul.

Úr fjölskyldusafni. Birt með leyfi The Innocence project.


„Þegar ég skoða þessa per­sónu­legu þætti þá lít ég á hvað var að gerast við yfir­heyrsluna sjálfa, hvernig voru við­brögð konunnar eða ein­stak­lingsins, hvað er hægt að lesa úr því. Eins skoða ég það sem ég kalla verndar­þætti, hvort við­komandi fékk ein­hverja að­stoð við yfir­heyrsluna eða hvort hann eða hún er al­ger­lega ein á báti.“

„Það er aug­ljóst hver vandi þessarar konu var og hve illa var staðið að þessu“

Gísli segir að fram til þessa hafi máls­varnar­teymið lagt fram ýmis gögn sál­fræðinga en hver og einn þeirra hafi að­eins skoðað af­markaða þætti í málinu.

Hann segir vanda­málið oft í málum af þessum toga að sam­hengið vanti. Heildar­myndina.

„Í þessu máli var enginn sem hafði getu eða þekkingu til að geta litið á allt málið í heild. Þetta eru svo margir þættir sem spila þarna inn í. Mitt hlut­verk var að líta yfir málið í heild, sem aldrei hafði verið gert.“

Lét leggja tvö próf fyrir Melissu

Auk þess að meta heild­stætt gögn málsins lét Gísli leggja tvö próf fyrir Melissu. „Hún var prófuð að minni beiðni. Ég stakk upp á því að það yrðu vissir þættir sem höfðu aldrei verið rann­sakaðir sem þurfti að rann­saka og það voru fengnir sál­fræðingar til að gera það. Þeir gerðu sef­næmis­prófið mitt og undan­láts­prófið, sem hjálpaði mér að fá betri heildar­mynd,“ segir Gísli, en þessi próf sem Gísli hefur þróað voru einnig lögð fyrir sak­borninga í Guð­mundar- og Geir­finns­málum.

„Það er aug­ljóst hver vandi þessarar konu var og hve illa var staðið að þessu,“ segir Gísli. Niður­staða hans er að á­hættu­þættir sem hann rann­sakaði og eru til staðar í máli Melissu valdi mikilli hættu á að yfir­lýsingar hennar séu rangar. Í grein í breska miðlinum The Independent, lýsir Gísli sann­færingu sinni um sak­leysi Melissu.

Ab­bott verður að taka af­stöðu

Að­spurður segir Gísli að ríkis­stjórinn sé til­neyddur að taka af­stöðu í máli Melissu vegna fram­kominnar beiðni. Það gerist hins vegar oft ekki fyrr en alveg á síðustu stundu.

„Það er ein­hver hefð fyrir því að bíða nánast alveg fram á síðasta dag eða svo gott sem. En ríkis­stjórinn verður að taka af­stöðu. Annað hvort hafnar hann beiðninni eða stoppar af­tökuna.“

Repúblikaninn Greg Abbott, hefur verið ríkisstjóri í Texas í tæp átta ár. Ákvörðun hans í máli Melissu gæti haft pólitískar afleiðingar fyrir hann en hann sækist eftir endurkjöri í nóvember og etur kappi um embættið við demókratann Beto O'Rourke.
Fréttablaðið/Getty

Fallist ríkis­stjórinn á beiðnina er lík­legast að dauða­dómnum verði breytt í lífs­tíðar­fangelsi, að sögn Gísla. Hann segir þó einnig mögu­legt að verj­enda­t­eymi hennar verði gefinn ein­hver frestur til að sýna fram á að játning hennar hafi verið fölsk. Fari svo er mögu­leiki að hún fái mál sitt endur­upp­tekið í því skyni að fá sak­fellingar­dómnum sjálfum hnekkt.

„Þetta er tölu­vert mikið af nýjum upp­lýsingum í málinu og það er búið að sanna líka margt um hve illa var staðið að rann­sókninni. Þetta er ekki bara ein­hver ein rann­sókn eða ein skýrsla frá mér. Ég er bara hluti af þessu teymi,“ segir Gísli og bætir við: „Það er ekki bara ein­hver einn sem kemur og bjargar málunum heldur mjög margir sem koma að þessu. Það þarf svo mikið teymi og mikla vinnu til að hnekkja svona málum.“

Athyglin skyndilega á máli Melissu

Mál Melissu vakti ekki mikla athygli þegar það var til rannsóknar og meðferðar fyrir dómi.

Árið 2019 kom út heimildarmyndin The state of Texas vs. Melissa sem fjallar um mál Melissu. Í kjölfarið jókst áhugi fólks á málinu og fjöldi þekktra einstaklinga hafa mótmælt fyrirhugaðri aftöku, einkum eftir að dagsetning hennar var tilkynnt.

Meðal þeirra sem mót­mælt hafa dauða­refsingunni og þrýst á ríkis­stjórann að skerast í leikinn eru þing­menn ríkis­þingsins í Texas, fólk sem sat í kvið­dómi í málinu og þekktir á­hrifa­valdar á borð við Kim Kar­dashian.

Þá hefur á­hugi fjöl­miðla á málinu aukist mjög, en málið fékk ekki mikla at­hygli þegar það fór fyrst fyrir dóm.

Bannað að gefast upp

Eins og fyrr segir á Gísli glæsi­legan feril á sínu sviði. Þótt hann sé kominn á eftir­laun tekur hann enn að sér mál, ekki síst í því skyni að læra meira. „Vísindin hafa þróast mjög mikið undan­farin 40 ár,“ segir Gísli.

„Ég hef haft svo mikið að gera frá því í júní að ég hef varla getað tekið mér dags­frí. Hvert málið á fætur öðru kemur til mín og allt mjög flókin mál,“ segir Gísli. Hann tekur að­eins að sér flóknustu málin og segist ekki taka þau mál sem aðrir geti unnið.

„Það er bara þegar þetta er komið í ein­hverja klemmu og enginn ræður við það að þá er leitað til mín til að leysa málið,“ segir hann. Geysi­lega mikil vinna liggi bak við hvert og eitt mál því fara þurfi ítar­lega yfir öll gögn og fara yfir alla á­hættu­þætti sem geti haft á­hrif, hversu al­var­legir þeir eru og hvað þeir segja varðandi á­reiðan­leika játninga sem voru gefnar við slíkar að­stæður.

„Ég er ekki að gera þetta nema af því að ég veit að ég get að­stoðað og það er ekki hægt að finna ein­hvern annan sem ræður við svona flókin mál. Ég geri það bara til þess að hjálpa til að fá rétt­læti. Það sem keyrir mig á­fram er bara sann­girni og rétt­læti og lær­dómur. Við lærum svo ofsa­lega mikið af hverju máli. Þá getur maður notað þá þekkingu til að byggja upp vísindin.“


„Þetta er ekki bara eins og maður vinni ein­hverja skýrslu og geti svo bara farið heim og slappað af. Þetta er enda­laus bar­átta.“


Gísli segir að hvert svona mál sé mikil bar­átta og það þurfi að hafa mikla þolin­mæði. Hann tekur Guð­mundar- og Geir­finns­mál sem dæmi. „Ég sá það strax þegar ég fór að vinna við málið að skýrsla innan­ríkis­ráð­herra 2013 var bara byrjunin,“ segir hann, en í þeirri skýrslu var meðal annars mat um á­reiðan­leika játninga.

„Það var bara byrjunin. Þetta er ekki bara eins og maður vinni ein­hverja skýrslu og geti svo bara farið heim og slappað af. Þetta er enda­laus bar­átta. Í svona flóknum málum þarf bara alltaf að halda á­fram og á­fram og safna meiri gögnum og gefast aldrei upp. Þetta er alltaf bar­átta en það má aldrei gefast upp. Það sem skiptir máli er rétt­læti gagn­vart ein­stak­lingunum.“

Athugasemdir