Um klukkan hálf tvö í nótt stöðvaði lögreglan í Hafnarfirði bíl sem notaði blá neyðarljós í akstri, eins og hann væri að reyna að stöðva bílinn fyrir framan. 

Ökumaðurinn jók hraðann þegar lögreglumenn ætluðu að hafa af honum afskipti – og reyndi að aka burt. Þetta kemur fram í orðsendingu frá lögreglu um viðburði næturinnar.

Fram kemur að lögreglu hafi tekist að stöðva för mannsins. Aðspurður hafi maðurinn sagt að ökumaðurinn í bílnum á undan hefði svínað fyrir sig. Hann hafi ætlað að hræða þann ökumann, með því að blikka hann með bláum ljósum. 

Búnaður mannsins var haldlagður og skýrsla tekin af manninum, sem hrellir ekki fleiri ökumenn með sama hætti að sinni.