Sarah Sanders, talskona Hvíta hússins, notfærði sér Biblíuna á blaðamannafundi í dag þar sem hún varði innflytjendastefnu stjórnar Trumps, sem tók gildi í maímánuði, um að aðskilja mæður og börn þeirra. The Guardian greinir frá.

Ummælin féllu á blaðamannafundi í Hvíta húsinu í dag þegar Sanders var innt eftir svörum um hvað henni fyndist um það ummæli sem Jeff Sessions, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna lét falla nýverið, þar sem hann nýtti sér vers úr Biblíunni til þess að verja fyrrnefnda innflytjendastefnu.

Sjá einnig: Gefa milljónir í mannréttindasamtök á afmæli Trumps

Sanders var spurð hvar í Biblíunni það segði að það væri siðferðislega rétt að taka mæður frá börnum þeirra.

„Ég er ekki meðvituð um ummæli dómsmálaráðherrans en ég get sagt að það er mjög í anda Biblíunnar að framfylgja lögum.“

Þessi nýja stefna stjórnvalda að aðskilja börn frá mæðrum sínum var kynnt í maí og hefur verið gagnrýnd harðlega, meðal annars af Mannréttindastofnun Sameinuðu Þjóðanna.  

Sessions sagði á þeim tíma: „Ef þú ert að smygla barni þá munum við lögsækja þig og þetta barn mun vera aðskilið frá þér eins og lög krefjast. Ef þér líkar það ekki, ekki smygla börnum yfir landamærin okkar.“