„Það er orðið svo­lítið mikið að gera. Við erum núna með tvo starfs­menn plús mig,“ segir Auður Filippus­dóttir, einn eig­enda Skútaíss í Mý­vatns­sveit, en þegar Frétta­blaðið bar að garði var litla ís­búðin full út úr dyrum, bæði af inn­lendum og er­lendum gestum.

Auður er með master í mat­væla­fræði og nýtti sér masters­verk­efnið til að koma ís­búðinni á lag­girnar. Lærði það sem upp á vantaði í Rea­ding á Eng­landi og nú sitja þau hjóna­leysin á kvöldin og hugsa út í bragð­tegundir.

Auður er í sam­bandi með Júlíusi Björns­syni, kúa­bónda á Skútu­stöðum. Þau kynntust rétt áður en Auður fór í námið og hún gerði sér snemma grein fyrir að ekki væri hægt að toga sinn mann úr sveitinni.

„Ég áttaði mig snemma á því að ef við ætluðum að vera saman yrði ég að búa hér í Mý­vatns­sveit og ég yrði hluti af búinu. Þannig að ég fór að hugsa hvernig ég gæti nýtt námið, gert eitt­hvað og þróað beint af býli.“

Úr varð ís­gerð sem hefur vaxið og dafnað þótt hús­næðið sé lítið.


„Allir elska ís"

„Ég geri ís­blöndur kvöldið áður til að þær standi í ís­skáp yfir nótt, sem er betra. Nú er orðið svo mikið að gera að við erum að gera ís allan daginn,“ segir Auður. „Það er svo mikið af fólki sem kemur í Mý­vatns­sveit á hverju sumri og mér fannst ísinn vera sniðugustu mat­vælin til að fram­leiða. Allir elska ís.“

Auður bendir á að draumurinn sé ekkert að stækka um of. Stefnan sé ekki sett á að komast í hillurnar á stóru mat­vöru­búðunum. Hún sér Skútaís frekar í hillum verslana sem bjóða upp á vörur beint frá býli en Skútaís hefur fengist á höfuð­borgar­svæðinu í verslun Me&Mu í Garða­bæ.

„Ég vil vera þar en ég sé mig ekki fara með Skútaís í Nettó, Hag­kaup eða á­líka. Það yrði of mikið fyrir okkar litlu fram­leiðslu. Mig langar frekar að stækka verslunina að­eins hjá okkur og bjóða fleiri af­urðir frá sveita­bænum eins og kjöt á grillið, egg, sultur, rabarbara­pæ og fleira.“

Auður er einnig með puttana í Mý­sköpun sem ræktar spirulinu­duft úr ör­þörungum, sem er eitt mest spennandi verk­efni sveitarinnar. Enda vill hún halda Skútaís þannig að ísinn taki ekki allan tímann.

„Fegurðin er að hafa þetta lítið. Þótt hús­næðið sé ekkert endi­lega það besta í heimi þá er það alveg smá heillandi að halda þessu litlu.“