Lög­reglan á höfuð­borgar­svæðinu hafði í mörg horn að líta í gær­kvöldi og í nótt, en alls voru 95 mál skráð hjá lög­reglu frá því klukkan 17 síð­degis í gær til klukkan 5 í morgun. Þar af voru tíu kvartanir vegna há­vaða.

Lög­reglan hand­tók mann í mið­borg Reykja­víkur en sá var að berja í bif­reiðar með hamri. Að sögn lög­reglu var maðurinn í annar­legu á­standi og með fíkni­efni með­ferðis. Hann var vistaður í fanga­klefa vegna málsins en ekki kemur fram í skeyti lög­reglu hversu margar bif­reiðar skemmdust.

Maður sem datt á hlaupa­hjóli var fluttur á slysa­deild til að­hlynningar, en að sögn lög­reglu datt hann á and­litið. Frekari upp­lýsingar um slysið koma ekki fram í dag­bók lög­reglu.

Lög­regla hand­tók svo mann í Hafnar­firði fyrir að veitast að fólki. Hann var í mjög annar­legu á­standi og var látinn sofa úr sér í fanga­klefa.

Lög­regla hand­tók svo ungan öku­mann í Grafar­vogi vegna aksturs undir á­hrifum fíkni­efna auk þess að vera með fíkni­efni með­ferðis. Málið var af­greitt með að­komu for­eldra vegna ungs aldurs öku­manns. Hann var látinn laus að lokinni skýrslu­töku.

Þessu til við­bótar voru fjöl­margir öku­menn teknir úr um­ferð vegna gruns um akstur undir á­hrifum fíkni­efna eða á­fengis.