Sorpa opnaði í dag á Sæviðarhöfða nýjan markað þar sem verða til sölu notuð byggingarefni og ýmsar vörur til framkvæmda og listsköpunar.

„Þetta á sér nokkurra ára aðdraganda. Við höfum verið með Góða hirðinn sem sýslar með það sem til fellur hjá fólki, svo sem húsgögn og húsbúnað. En við höfum verið að sjá það á endurvinnslustöðvunum að það er að koma inn mikið af byggingaefni og grófari efnum eins og timbur, þakplötur, hurðir, klósett, pallaefni og ýmislegt. Við ákváðum því að greina þetta og hverjir gætu haft áhuga á því að eignast þetta og gera eitthvað við þetta,“ segir Guðmundur Tryggvi rekstrarstjóri endurvinnslustöðva Sorpu í samtali við Fréttablaðið í dag.

Guðmundur segir að Sorpa hafi fengið til samstarfs við sig fyrirtækið Haugfé og þær hafi greint hverjir gætu verið mögulegir viðskiptavinir og hvaða efni fólk væri líklegt til að kaupa og endurnýta.

„Miðað við niðurstöðurnar frá Haugfé sáum við að það var ástæða til að nýta þessa hluti og prufa þetta. Það var ljóst af markhópagreiningunni að það væri slatti af fólki sem vildi skoða og kaupa. Það er þá fólk sem er í húsnæðisbreytingum, listafólk, föndrarar og skólafólk, á til dæmis leikskólum. Pinterest er góður vettvangur til að finna hugmyndir. Þar er fólk breyta hlutum sem hafa fallið til,“ segir Guðmundur.

Hann segir ýmislegt í boði eins og vaskar, hurðir og notað tréefni. „Þetta er kannski ekki sambærilegt við Bauhaus, en einhver staðar verðum við að byrja. Við erum mjög spennt að sjá hvernig gengur í dag,“ segir Guðmundur Tryggvi að lokum.

Hagnaður sem kann að verða af sölu efna mun renna til góðgerðarmála, líkt og á við um hagnað af sölu húsbúnaðar hjá Góða Hirðinum í Fellsmúla. Opnunartími markaðsins verður mánudaga til laugardaga 12.00-17.30 en lokað verður á sunnudögum.

Hér að neðan má sjá myndir af því sem í boði var í dag um hádegisbil þegar ljósmyndari Fréttablaðsins Anton Brink heimsótti markaðinn.