Slysavarnafélagið Landsbjörg notar drónamyndband af flutningi á látnum ferðamanni í nýrri auglýsingu vegna söfnunar sem hefst á Stöð 2 á morgun. Í myndbrotinu sjást aðgerðir björgunarsveitarmanna við að koma líki niður af Kirkjufelli í Grundarfirði á Vesturlandi. Tveir dagar eru frá banaslysinu.

Sjá einnig: Banaslys við Kirkjufell

Myndbandið er brot úr sjónvarpsþætti sem sýndur verður á Stöð 2 á morgun í tilefni söfnunar fyrir björgunarsveitunum. Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Landsbjargar segir að ekki hafi verið haft samband við aðstandendur hins látna, sem var erlendur ferðamaður. „Við erum að sýna þarna myndband af aðgerðinni sem átti sér stað þarna í fyrradag. Það var mat okkar að þetta myndefni er ekki frábrugðið öðrum myndum og myndböndum sem við höfum birt af vettvangi,“ segir Davíð. „Við gætum fyllstu varkárni og tryggðum að það væri ekki verið að sýna neitt persónugreinanlegt.“

Aðspurður hvort að ekki sé hætta á því að einhver gæti verið viðkvæmur fyrir því að sýna myndband frá líkflutningi tveimur dögum frá banaslysi játar Davíð að eflaust væri það svo. „Þetta var gert í samráði við aðra vettvangsaðila á staðnum. Í þættinum sem er sýndur á morgun birtist fjöldinn allur af myndum og myndböndum af þeim erfiðu verkefnum sem meðlimir í Landsbjörg kljást við,“ svarar Davíð. „Þetta er eitt af þeim.“

Samkvæmt upplýsingum Fréttablaðsins er mikil óánægja með myndbandið inni á meðlimasíðu Landsbjargar á Facebook.