Utanríkisráðuneyti Danmerkur tilkynnti í síðustu viku að framvegis yrði ríkjaheitið Belarús notað frekar en Hvíta-Rússland. Danir fylgja fordæmi Svía sem ákváðu árið 2019 að kalla landið Belarus en utanríkisráðherra Noregs, Ine Eriksen Søreide, sagði í febrúar að norsk stjórnvöld myndu áfram nota heitið Hvíta-Rússland.

„Samkvæmt samræmdum landa­lista utanríkisráðuneytisins og Hagstofunnar er heiti landsins skráð sem Belarús,“ segir Sveinn Guðmarsson, fjölmiðlafulltrúi utanríkisráðuneytisins, í samtali við Fréttablaðið. „Í fréttatilkynningum ráðuneytisins og ræðum utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra hefur þó líka verið talað um Hvíta-Rússland, samanber landalista Árnastofnunar, og jafnvel oftar en Belarús. Við höfum hins vegar ákveðið að festa nafnið Belarús enn betur í sessi hjá okkur.“

Á lista Stofnunar Árna Magnússonar yfir ríkjaheiti eru bæði Hvíta-Rússland og Belarús skráð sem almenn heiti landsins.

„Þetta er auðvitað alltaf snúið mál,“ segir Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor emeritus í íslenskri málfræði. „Utanríkisráðuneyti Íslands fékk fyrir einhverju síðan þau tilmæli að nota frekar Belarús en Hvíta-Rússland, meðal annars til að aðgreina landið frekar frá Rússlandi. Það er svo eitt að breyta heiti ríkis opinberlega en svo annað hvort það þurfi endilega að skila sér í almennu máli og þá hvort það þurfi að gerast strax eða smám saman.“

Eiríkur segir að líkt og með fjölda orða í íslensku sem þóttu eðlileg fyrir nokkrum áratugum og þyki ekki lengur við hæfi sé vert að skoða notkun á heiti landsins betur. „Spurningin er hvort við eigum að halda í hefðina eða virða vilja þjóðar um að nota ekki heiti yfir hana sem hún telur óviðeigandi.“