Ferðaþjónustufyrirtækin sem nýta veginn upp að Kötlujökli ætla ekki að svara talsmönnum Viking Park Iceland sem hyggja á gjaldtöku á veginum. Barist verði með kjafti og klóm gegn vegatolli. Ekki sé verið að bjóða upp á neina þjónustu á vegi, sem notaður hafi verið lengi af ferðaþjónustufyrirtækjum, kvikmyndatökufólki og fleirum.

„Við munum ekki svara þessum mönnum og ekki láta þetta yfir okkur ganga. Hér eru grunntekjur þjóðarbúsins undir,“ segir Jón Páll Baldvinsson, framkvæmdastjóri FETAR, landssamtaka um 80 ferðaþjónustufyrirtækja sem bjóða upp á sérhæfðar ferðir. Nokkur þeirra bjóða upp á ferðir að Kötlujökli, sem er þjóðlenda í austurhluta Mýrdalsjökuls. Til að komast þangað nota þau veg sem liggur af þjóðvegi 1 sem Viking Park hyggst tolla.

Jörðin Hjörleifshöfði var keypt síðastliðið haust af þýsku orku- og jarðvinnslufyrirtæki, STEAG Power Minerals, til þess að taka sand til steypugerðar. Í slagtogi við STEAG voru Jóhann Vignir Hróbjartsson, Páll Tómasson og Victor Berg Guðmundsson sem koma að félaginu Viking Park.

Í byrjun mánaðar var greint frá því að Viking Park hygðist rukka fyrirtæki fyrir aðgang að veginum frá og með 1. júlí næstkomandi. Væri þetta gert til þess að takmarka umferð og koma í veg fyrir utanvegaakstur. Birtar voru myndir af hjólförum í sandinum þessu til stuðnings.

Jón Páll gefur lítið fyrir rökin um utanvegaakstur. „Hér er verið að nota baráttu við utanvegaakstur sem átyllu til þess að setja á vegatolla á ferðaþjónustufyrirtækin,“ segir hann. „En þessi spólför sem þeir hafa birt myndir af eru ekki eftir atvinnutæki fyrirtækjanna.“

Þetta myndi gera Íslendinga að leiguliðum hjá erlendum fjármagnseigendum sem geta keypt allt landið án þess að depla auga.

Engin krónutala hefur verið nefnd sem veggjald á veginum upp að Kötlujökli en Jón Páll bendir á að ekki sé verið að selja neina vöru eða þjónustu. Það hafi verið rök Kerfélagsins fyrir gjaldtökunni að Kerinu í Grímsnesi en slíku sé ekki til að dreifa núna.

Bendir hann á að fyrirtækin í FETAR hafi fjárfest í dýrum búnaði, bifreiðum og þjálfun starfsfólks til þess að geta sinnt ferðum á hálendi og láglendi allt árið um kring. Reksturinn sé dýr og hver ferðamaður verðmætur. Alls skili fyrirtækin innan FETAR 14 milljörðum í gjaldeyristekjum árlega til þjóðarbúsins.

„Vegatollurinn myndi setja gríðarlega slæmt fordæmi,“ segir Jón Páll. „Þetta myndi gera Íslendinga að leiguliðum hjá erlendum fjármagnseigendum sem geta keypt allt landið án þess að depla auga.“

Samkvæmt Jóni Páli verða allar leiðir skoðaðar til að stöðva gjaldtökuna, það er innan stjórnsýslunnar, stjórnmálanna og dómstólanna.