Flest húsanna í nýja miðbænum á Selfossi eru steypt og síðan klædd eldvörðu timbri. Að ytra frágangi eru einhver þeirra eftirlíkingar annarra sem prýddu bæinn fyrr á tíð, önnur sækja útlit sitt til bygginga annars staðar á landinu. Sumar þeirra höfðu orðið eldi að bráð, svo sem Friðriksgáfa á Möðruvöllum og ráðherrabústaðurinn á Þingvöllum sem reistur var fyrir konungskomuna 1907. Edinborgarhúsið í Hafnarstræti var líka skreytt áður en kóngurinn kom og nú birtist það á Selfossi. En eitt hús sker sig úr í stærð og stíl, hið gamla Mjólkurbú Flóamanna sem stóð austast í Selfossbæ og vék fyrir öðru.

Mjólkurbúshúsið setur sterkan svip á umhverfið. Þar verður skyrsafn, mathöll og píanóbar.
Flygenringshús í Hafnarfirði var reist 1906. Síðar þekkt sem Hótel Björninn. Húsið með litla turninum er byggt eftir mynd af því.

Upp á gamla mátann

„Þetta er hrikalega gaman,“ segir Bergþór Kristinsson um vinnubrögðin sem beitt er við byggingarnar og Jón Þór Sveinsson, félagi hans, tekur undir það. Báðir eru lærðir smiðir en segja margt sem þeir fást við nú vera umfram það sem skólanámið bauð upp á. „Allur þessi frágangur kringum glugga og annað sem er upp á gamla mátann,“ tekur Bergþór sem dæmi. „Sem þýðir fyrir okkur að það er margt nýtt og spennandi að læra,“ segir Jón Þór.

Tröppurnar og torgin verða hellulögð eins og sést á þessari mynd.
Sævar Sverrisson hefur verið annar tveggja verkstjóra á svæðinu frá því hafist var handa fyrir einu og hálfu ári.

Fyrsti hluti af þremur

Sævar Sverrisson er verkstjóri Jáverks sem sér um þessa uppbyggingu fyrir Sigtún þróunarfélag. „Við erum með um tuttugu smiði en í allt hugsa ég að hér séu 40-50 manns að vinna. Allt er handgert og pensilmálað,“ segir hann og sýnir okkur Valgarði ljósmyndara það helsta.

Mjólkurbúshúsið er á þremur hæðum. Í kjallaranum verður mjólkurvinnslu gert hátt undir höfði. Fyrsti mjólkurbíll Flóamanna er þar undir segli. „Þennan fengum við hjá Þjóðminjasafninu. Við steyptum húsið utan um hann,“ útskýrir Sævar. Á miðhæðinni verður mathöll með sunnlenskum krásum og uppi hringbar í miðju og sæti undir súð. „Hér er allt nýtt en lítur út fyrir að vera ónýtt!“ segir Sævar glettinn. Þegar við stígum út bendir hann yfir svæðið og segir: „Það sem komið er upp af húsum er bara fyrsti hluti miðbæjarins af þremur. Við erum rétt að byrja!“

Hér er eftirlíking af Edinborgarhúsinu í Hafnarstræti á vinstri hönd. Gatan verður vistgata með rólegri umferð.
Horft niður á væntanlegt torg, tröppurnar næst verða bæði til að ganga um og sitja í. Til vinstri handar verða veitingahús, verslanir og íbúðir og veitinga-og tónleikastaður hægra megin.