Íbúar Norður Kóreu munu kjósa til æðsta þjóðþings ríkisins í dag. Þingið hefur lítið vald og þykir vægast sagt ólíklegt að mjótt verði á munum í kosningunum.

Kosningaþátttaka er lögbundin í Norður Kóreu, og er öllum þegnum landsins, 17 ára og eldri, skylt að mæta á kjörstað. Kjörsókn er því jafnan litlu minni en 100 prósent. Þau sem eru erlendis eða á hafi úti eru þó undanþegin kjörskyldu.

Kjörseðill með einu nafni

Kosið er í einmenningskjördæmum og er aðeins einn fulltrúi í framboði. Þegar á kjörstað er komið fá kjósendur afhendan kjörseðil, og á honum stendur eitt nafn. Ekki er ætlast til þess að kjósendur leggi það á sig að merkja við sitt val, heldur er einungis ætlast til þess að kjósandinn brjóti saman kjörseðilinn og skili honum í kjörkassann í augnsýn viðstaddra. Þó er á staðnum lokaður kjörklefi, en að notast við hann myndi vekja grunsemdir um hollustu kjósandans.

Fræðilega séð stendur kjósendum til boða að strika út frambjóðanda. Í samtali við BBCsegir hins vegar Fyodor Tertisky, sérfræðingur í málefnum Norður Kóreu, að slíkt sé óhugsandi og myndi líklega vera tilefni til rannsóknar leynilögreglu norðurkóreska ríkisins.

Eftir að búið er að skila atkvæðaseðlinum í kjörkassann er ætlast til að kjósendur fagni með samlöndum sínum fyrir tækifærið til að hafa áhrif á stjórn landsins.

Kosið til klappstýruþings

Þrátt fyrir nafn æðsta þing alþýðunnar, eins og þjóðþingið mætti kalla á íslensku, er það nær valdalaust. Formlega séð kýs það framkvæmdarvaldið, fer með fjárlög og á að heita löggjafarvald Norður Kóreu. Þrátt fyrir það fer ríkisstjórn Kim Jong-Un ein með völd. Þingið er því frekar í hlutverki klappstýru fyrir ríkisstjórnina.

Allir frambjóðendur til þingsins tilheyra Lýðræðisfylkingunni fyrir sameiningu föðurlandsins. Fulltrúar Verkamannaflokks Norður Kóreu eigu nær öll þingsæti fylkingarinnar, en tveir smærri flokkar, Sósíaldemókrataflokkurinn og Chondoist Chongu-flokkurinn, eiga þó tíunda hvern þingmann eða svo. Engin stjórnarandstaða er í landinu og eru allir flokkar fylgjandi stefnu Kim Jong-Un, leiðtoga Verkamannaflokksins og Norður Kóreu.

Niðurstöður kosninganna má vænta á þriðjudag.