Eins árs gamall drengur í Noregi var í dag lagður inn á sjúkrahús eftir að hann smitaðist af þremur mismunandi öndunarfæraveirum auk kórónuveirunnar.

Norski fréttamiðillinn VG greinir frá því að drengnum, Birk að nafni, hafi verið vísað á spítala eftir að heimilislæknir fjölskyldunnar fékk að skoða hann á fjarfundi.

„Sem móðir sá ég strax að þetta var ekki bara venjuleg veiki sem var hægt að láta líða hjá í heimahúsum,“ hefur VG eftir Tinu Løvberg, móður Birks.

Birk hafði þegar greinst með kórónuveiruna eftir heimapróf en eftir að hann var fluttur á sjúkrahúsið leiddu greiningar á blóði og munnvatni hans í ljós að hann var smitaður af þremur veirum til viðbótar. Veirurnar voru RS-veira, adenóveira og iðraveira.

Norska landlæknisembættið sagði við VG að sumar öndunarfæraveirur væru að láta á sér kræla fyrr en venjulega.

„Þetta tengist því fyrst og fremst að við erum farin að lifa eðlilegu lífi og erum í að minnsta kosti jafnmiklum samskiptum við aðra og fyrir faraldurinn,“ hafði VG eftir norska aðstoðarlandlækninum Espen Rostrup Nakstad. „Meðal yngstu aldurshópanna gætu einnig orðið fleiri smit en venjulega í vetur þar sem útbreiðsla öndunarfæraveira var mun minni á tíma heimsfaraldursins.“

Móðir Birks sagði á laugardaginn að honum liði mun betur eftir að hann var lagður inn á sjúkrahúsið og myndi snúa aftur á leikskóla á morgun.