Norski sendi­herrann á Ís­landi leitar að tveimur konum sem komu henni til bjargar eftir al­var­legt slys í Heið­mörk. Hún datt á hlaupum og hand­leggs- og fót­brotnaði. Vegna kvala náði hún ekki að þakka konunum á staðnum.

„Þær björguðu mér,“ segir norski sendi­herrann Aud Lise Nor­heim, um tvær konur sem komu henni til að­stoðar eftir al­var­legt slys í Heið­mörk. Hún leitar nú að þeim til að geta þakkað þeim fyrir, því hún var ekki í á­standi til að gera það á vett­vangi.

Aud var að hlaupa með eigin­manni sínum mið­viku­daginn 23. septem­ber þegar slysið varð, um klukkan 18. Hann fór aðra leið og ætluðu þau að mætast á á­kveðnum stað. En Aud hrasaði um rót eða stein, með þeim af leiðingum að hún féll harka­lega og bæði fót­leggs- og hand­leggs­brotnaði hægra megin. Lá hún ein og bjargar­laus í kannski korter, en hún segist hafa misst tíma­skynið.

„Ég sá tvær konur koma og þær studdu mig að bílnum sínum og keyrðu með mig á bráða­mót­töku spítalans í Foss­vogi,“ segir Aud. Á þessum tíma hafi hún ekki áttað sig á hversu al­var­lega slösuð hún var, en það hafi þó verið mjög sárs­auka­fullt að komast að bílnum. „Ég var með meiri verki í hand­leggnum en fætinum og ein­beitti mér að þeim sárs­auka.“

Aud náði ekki nöfnum kvennanna og átti í raun í erfið­leikum með að átta sig á nokkrum sköpuðum hlut, svo kvalin var hún. Hún man þó að þær voru á fer­tugs- eða fimm­tugs­aldri og í rauðum hlaupa­fötum með merki, sem gæti bent til þess að þær hafi verið í ein­hverjum hlaupa­hóp eða -liði. Bíllinn sem þær keyrðu hana á var ljós­leit eða grá Kia.

Daginn eftir slysið fór Aud í að­gerð vegna bein­brotanna og býst hún við því að verða út­skrifuð af spítalanum bráð­lega. Fer hún þá í endur­hæfingu, áður en hún getur snúið aftur heim.

„Mig langar til að finna þessar konur og þakka þeim,“ segir Aud. „Ég gat ekki gert það á staðnum því að ég gat ekki hugsað um neitt annað en að komast á spítalann. Ég veit ekki hvað hefði gerst ef þær hefðu ekki fundið mig.“

Vonast Aud til þess að þær hafi sam­band og segir að auð­veldast sé að gera það í gegnum norska sendi­ráðið, sem stað­sett er að Fjólu­götu 17 í Þing­holtunum. Síma­númerið þar er 520-0700.