Þó að aðildarumsókn Svíþjóðar að Atlantshafsbandalaginu (NATO) tefjist um nokkra mánuði eða jafnvel ár, er vel hægt að tryggja öryggi landsins með tvíhliða samningum. Þetta segir Friðrik Jónsson, fyrrverandi fulltrúi Íslands í hernaðarmáladeild NATO og núverandi formaður BHM.

„Óháð því hvenær formleg aðild klárast verður áfram stígandi í varnarsamstarfi milli Svíþjóðar, Finnlands og NATO,“ segir Friðrik.

Frá því að Svíþjóð og Finnland sóttu um aðild að bandalaginu í sumar hefur umsókn, að minnsta kosti Svíþjóðar, aldrei virst í jafn mikilli blindgötu og nú. Hvorki Ungverjaland né Tyrkland hafa samþykkt umsóknina en athyglin er á Tyrklandi.

Friðrik Jónsson fyrrverandi fulltrúi í hernaðarmáladeild NATO.
Aðsend mynd.

Eftir að hinn dansk-sænski öfgamaður Rasmus Paludan sást brenna Kóraninn fyrir utan tyrkneska sendiráðið í Stokkhólmi sagði Recep Erdogan Tyrklandsforseti að Svíar gætu ekki treyst á stuðning Tyrkja. Tyrkir hafa heldur ekki fengið þá Kúrda framselda sem þeir vilja. Í kjölfarið af þessum vendingum sagði Pekka Haavisto, utanríkisráðherra Finnlands, að Finnar gætu þurft að hugsa um að hætta samfloti við Svía, en í ljósi landfræðilegrar legu Finnlands að Rússlandi liggur Finnum meira á að komast inn í NATO.

Friðrik útilokar ekki þá sviðsmynd að Finnland gangi í NATO á þessu ári en Svíþjóð ekki. Flestallir vilji hins vegar sjá þetta gerast samhliða. Sjálfur segist Friðrik hafa trú á að umsóknin skili sér í höfn. „Það eru hagsmunir allra NATO ríkja, þar á meðal Tyrklands, og auðvitað Svíþjóðar og Finnlands, að þetta gangi í gegn,“ segir Friðrik.

Þangað til sé varnarsamstarfið hins vegar sífellt að aukast. Meðal annars innan JEF, sem Bretar leiða og bæði Finnland og Svíþjóð eiga aðild að. Ekkert komi í veg fyrir tvíhliða varnarsamninga, svo sem milli ríkjanna tveggja og Bandaríkjanna eða Bretlands. Þá sé samstarfið innan NATO þegar orðið meira eftir að formleg umsókn barst. Til dæmis voru yfirhershöfðingjar Svíþjóðar og Bretlands á herráðsfundi NATO í síðustu viku.

Friðrik segir kosningarnar í Tyrklandi þann 14. maí helstu ástæðuna fyrir andstöðu Tyrkja. „Aðildarumsóknin er að manni sýnist að verða fórnarlamb í hefðbundnum taugatitringi fyrir kosningar,“ segir Friðrik. Ekki sé hægt að neita því að staðan sé flókin, en þó séu engin merki um að almenn samstaða innan bandalagsins sé að bresta.

„Tyrkland hefur sína hagsmuni sem markast mjög af landfræðilegri stöðu milli Evrópu, Miðausturlanda og Asíu. Tyrkir eru mjög ófeimnir við að verja sína hagsmuni sama hvað. Sumum getur fundist það hvimleitt en aðrir virða hvað þeir halda í hagsmuni sína,“ segir Friðrik.

Aðspurður hvort að það gæti verið komin upp þreyta hjá öðrum NATO ríkjum gagnvart Tyrkjum segir Friðrik það fara eftir hvort töfin teljist málefnaleg eða hvort Tyrkir séu að blanda óskyldum málum inn í afgreiðslu umsóknarinnar. Það gæti valdið núningi.