Norski flug­herinn kemur hingað til lands með fjórar F-35 orrustu­þotur í vikunni. Flugsveitin verður hér í rúman mánuð til að sinna loft­rýmis­gæslu At­lands­hafs­banda­lagsins (NATO) og verður með að­setur á öryggis­svæðinu á Kefla­víkur­flug­velli.


Þetta kemur fram í til­kynningu frá Land­helgis­gæslunni. Að jafnaði koma er­lendar flugsveitir hingað til lands til loft­rýmis­gæslu þrisvar á ári og er þetta sú fyrsta sem kemur í ár. Gæslan fer hér fram sam­kvæmt á­kvörðun fasta­ráðs NATO frá árinu 2007 og er liður í því að gæta að nyrðri mörkum NATO og auka sam­hæfni í við­bragðs­getu þátt­töku­ríkja.

Um 130 liðs­menn norska flug­hersins koma til Ís­lands og til við­bótar ein­hverjir starfs­menn frá stjórn­stöð NATO í Udem í Þýska­landi. Flugsveitin flytur með sér fjórar F-35 orrustu­þotur, sem þykja ein­hverjar þær bestu sem til eru. Þetta er í annað sinn sem slíkar þotur koma til Ís­lands en ítalski flug­herinn flutti með sér F-35 vélar þegar hann sinnti loft­rýmis­gæslu hér í fyrra.

Í sam­tali við Frétta­blaðið segir Ás­geir Er­lends­son, upp­lýsinga­full­trúi Land­helgis­gæslunnar, að ekki sé ljóst hvaða dag flug­herinn komi til landsins en það verði í þessari viku. Flug­herinn mun þá stunda æfingar sam­hliða gæslunni og er gert ráð fyrir að­flugs­æfingum að vara­flug­völlunum á Akur­eyri og Egils­stöðum á tíma­bilinu 20. til 29. febrúar.


Land­helgis­gæslan annast verk­efnið í sam­vinnu við Isavia en gert er ráð fyrir að því ljúki og flug­herinn fari aftur heim í lok mars.