Norðmenn munu sinna loftrýmisgæslu í mars með F-35 orrustuþotum sínum, en norski flugherinn frumsýndi orrustuþotuna á Íslandi fyrir ári síðan. Er þetta í sjötta skiptið sem Norðmenn vakta íslenska lofthelgi en hin skiptin voru árið 2009, 2011, 2014, 2016 og 2020.

130 manns fylgja orrustuþotunum, bæði hermenn og annað starfsfólk. Mun það vinna í samstarfi við starfsfólk Landhelgisgæslunnar og Keflavíkurflugvallar.

Nokkur spenna hefur verið á norðurslóðum undanfarið. Í síðustu viku greindi Fréttablaðið frá því að þotur norska flughersins hefðu bægt tveimur rússneskum sprengjuvélum frá í Noregshafi, sem virtust stefna á Ísland. Hugsanlegt er að Rússar hafi verið að senda NATO skilaboð um loftrýmisgæsluna og herhæfingar bandaríska flughersins í Noregi í næsta mánuði.