Lögreglan í Noregi leitar nú að manneskju í trúðabúningi sem var að hræða börn í bænum Ski.
Á vef norska miðilsins VG kemur fram að trúðurinn hafi hrætt börn allt niður í sex ára aldur. Lögreglunni hafa í dag borist nokkrar tilkynningar um málið frá fjölskyldumeðlimum um hrædd börn.
„Við erum að reyna að komast að því hvað gerðist, en það gæti verið eitthvað glæpsamlegt,“ segir vaktstjóri lögreglu við VG og að þetta sé ekki algengt vandamál.
Manneskjan í trúðabúningnum er sögð hafa klæðst blárri skyrtu og rauðum buxum.