„Það leikur enginn vafi á því að Talibanar hafa svikið öll möguleg loforð sem þeir gáfu í samningaviðræðunum í Doha og Islamabad og ekki síst í Osló í fyrra,“ hefur norska blaðið Verdens Gang eftir Jan Egeland hjá norsku Flóttamannahjálpinni.

Egeland er nú í Kabúl í Afganistan þar sem hann hefur að sögn VG átt fundi með leiðtogum Talibana og sakað þá um að hafa gengið bak orða sinna. Það sé ástæðan fyrir því að Norðmenn greiði ekki út áður ákveðna neyðaraðstoð upp á 350 milljónir norskra króna sem eru jafnvirði tæplega 5,1 milljarðs íslenskra króna.

„Ég var sjálfur í Kabúl í september 2021, rétt eftir að Talibanar tóku völdin,“ segir Egeland í símaviðtali við VG. „Mér var lofað að stúlkur fengju að ganga í skóla og að konur fengju að halda störfum sínum áfram.“

Hvort tveggja segir Egeland Talibana hafa svikið. Skömmu fyrir jól hafi orðið ljóst að konur myndu missa bæði möguleikann á æðri menntun og á því að fá störf hjá hinu opinbera. Stúlkur fái aðeins að ganga í skóla upp í sjötta bekk, þá sé þeim vísað frá.

„Á fundunum sem ég hef átt með leiðtogum Talibanastjórnarinnar í Kabúl hef ég sagt sem svo: Ég taldi að það væri til siðs í Íslam að halda orð sín. Þið hafið svikið þau,“ lýsir Egeland skilaboðum sínum til harðstjóranna í Afganistan.

„Þeir sem ég ræddi við fannst þetta óþægilegt. Þeir viðurkenndu að loforð hafi ekki verið haldin. Þeir sögðu að öfgamenn hefðu náð yfirhöndinni,“ svarar Egeland spurður í síma af blaðamanni VG um viðbrögð hinna háttsettu viðmælenda hans.

Jan Egeland sem fer fyrir norsku Flóttamannahjálpinni skefur ekki utan af hlutunum í samtölum við ráðamenn Talibana.

Að sögn Verdens Gang er það æðsti leiðtogi Talibana, Haibatullah Akhundzada, sem gaf út tilskipanirnar sem útiloka konurnar. Sagt hafi verið frá auknum ágreiningi milli Akhundzada, sem haldi til í hinni íhaldssömu borg Kandahar, og ráðandi Talibana í stjórninni í Kabúl. Hinir síðarnefndu vilji fá viðurkenningu alþjóðasamfélagsins með því að konur verði ekki algjörlega útilokaðar en Akhundzada hafi yfirhöndina.

„Við vonumst til að gefin verði út ný tilskipun sem geri stúlkum og konum kleift að snúa til náms og starfa,“ segir Egeland. Norska flóttamannahjálpin hafi stöðvað alla starfsemi sína í átján héruðum. Af 1.600 starfsmönnum séu 470 konur.

„Án þeirra getum við ekki unnið okkar starf því karlmönnum er bannað að aðstoða ókunnugar konur,“ útskýrir Egeland stöðuna fyrir VG.