Norska vísindakonan Dr. Anne Eskild segir í samtali við Fréttablaðið að mögulegt sé að kórónuveiran hafi verið búin að ná talsverðri dreifingu á heimsvísu áður en fyrstu opinberu tilkynningar bárust.

Eskild leiddi rannsókn þar sem sýni 6520 þungaðra kvenna, á fyrsta þriðjungi meðgöngu, voru rannsökuð og mátti greina mótefni gegn SARS-CoV-2 hjá 98 þessara kvenna. Þar voru notuð Elecsys® Anti-SARS-CoV-2 próf.

Mótefni hafi greinst hjá 98 konum

Lesa má rannsóknarskýrsluna hér. Þar er tekið er fram að hlutfall jákvæðra sýna í mótefnamælingu hafi farið hækkandi eftir því sem leið á rannsóknina.

Þar segir að í desember 2019 hafi ein kona greinst jákvæð fyrir Covid-19 smiti, en með sömu mælingum hafi greinst 21 smit hjá sama hópi í desember 2020.

En af þeim 98 konum sem greindust jákvæðar í mótefnamælingu 2019 hafi 36 þeirra greinst með einkenni virks SARS-CoV-2 smits í blóði, á þeim tíma sem sýnið var tekið.

Þá segir að fjórar konur hafi verið með einkenni smits í blóði fyrir lok febrúar 2020, þegar tilkynnt var opinberlega um fyrsta smitið í Noregi.

Gætu hafa smitast utan Noregs

Sýnin voru tekin í reglubundinni skoðun í meðgöngueftirliti við nærst stærsta sjúkrahús í Noregi, háskólasjúkrahúsið við Akershus. Sjúkrahúsið þjónar hálfri milljón íbúa í útjaðri Osló.

„Konurnar voru af allskonar uppruna,“ segir Eskild. „Það er mögulegt að þær hafi smitast erlendis eða af vinum eða ættingjum sem höfðu verið erlendis. Sagan um upphaf heimsfaraldursins í Noregi og Svíþjóð, er á þá leið að smitin hafi fyrst komið frá skíðafólki sem ferðaðist til Austurríkis og Ítalíu,“ segir hún. „En ég held, að ef veiran var þar - þá var hún víðar. Það má kannski túlka niðurstöður rannsóknarinnar þannig.“

Segir gagnrýni Kára myndu gengisfella öll mótefnapróf

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, gagnrýndi rannsóknina, aðspurður í samtali við Fréttablaðið í gær, og sagði hana ekki breyta neinu. „Þeir fundu mótefni gegn kjarnapróteini veirunnar í einni konu í desember 2019 og það þýðir ekki nokkurn skapaðan hlut,“ sagði Kári.

Eskild svaraði gagnrýninni á þá leið að þau hafi notað mjög áreiðanleg mótefnapróf, hin sömu og notuð hefðu verið allan faraldurinn. Ef fyrstu jákvæðu prófin í rannsókninni hefðu verið óáreiðanleg væru öll Covid-19 gögn um mótefnamælingar í Noregi líka óáreiðanleg. Hún sagðist þó ekki útiloka möguleikana á því að prófin gætu gefið falskar jákvæðar niðurstöður. En einnig þyrfti að reikna með fölskum neikvæðum niðurstöðum, konum sem hefðu fengið vírusinn en ekki þróað með sér mótefni.

Vonast eftir sambærilegri rannsókn á Íslandi

Hún sagði að aðstæður til rannsókna á borð við þessa væru mjög góðar, í ljósi þess að næstum því allar þungaðar konur í Noregi færu í meðgöngueftirlit og blóðsýnatöku. „Við fengum leyfi til að nota sýnin í þessari rannsókn, sem að sjálfsögðu var nafnlaus og órekjanleg,“ segir hún.

Eskild tekur fram að niðurstöðurnar hafi komið henni gríðarlega á óvart. Hugsanlega væri hægt að gera sambærilega rannsókn í nágrannalöndunum og þar á meðal Íslandi, og segist hún vonast til þess að sá möguleiki verði kannaður.