Norræn ríki leita til sterkra ríkjabandalaga eins og ESB og NATO þegar á reynir, segir Hrannar B. Arnarsson, formaður Norræna félagsins, og að samstarfi ríkjanna hafi hnignað.

„Þannig er þróunin í heiminum að ríkjasambönd verða alltaf sterkari og sterkari og mikilvægari þættir í allri samvinnu og alþjóðastarfi,“ segir hann og að það sé algerlega nauðsynlegt að norrænu ríkin búi sér til sterka ríkjastofnun sem getur tekið á stórum málum sem annars er leitað með út fyrir raðir þeirra. Ef ekki muni norrænu samstarfi halda áfram að hnigna, meinar Hrannar.

Björn Jón Bragason ræddi við hann í þættinum Saga og samfélag á Hringbraut.

Norðurlöndin hafa farið ólíkar leiðir í alþjóðasamstarfi, þrjú ríkja Norðurlanda hafa gengið í Evrópusambandið, tvö eru utan við það og tvö eru utan við NATO. Hrannar telur þetta hafa bitnað á samstöðu norrænu ríkjanna.

Norræna félagið hér á landi er 100 ára nú en dagur Norðurlandanna er 23. mars.

Fram kemur í viðtalinu að norrænt samstarf sé ekki sjálfgefið, þótt svo virðist eftir yfir 100 ára samvinnu – ekkert sjálfgefið frekar en lýðræði og frelsi í ríkjum Evrópu eins og viðburðir í austurhluta álfunnar sýna.

„Fyrir hundrað árum síðan var þetta ekkert sjálfgefið,“ segir Hrannar enda sýnir sagan að ekki var alltaf friður á milli Norðurlandanna. „Það er algjörlega magnað að okkur hafi tekist á þeim hundrað árum að búa til það þéttriðna net samstöðu og samstarfs,“ segir Hrannar.

Ísland hafi orðið aðeins seinna til að hefja slíka samvinnu við hinar Norðurlandaþjóðirnar: „Það var svo sem ekki mikill spenningur fyrir norrænu samstarfi svona á meðan við vorum að reyna að slíta okkur frá Dönum.“

Viðtalið í heild má sjá í spilaranum hér að neðan