„Auðvitað vilja allir vinna og sérstaklega þennan leik,“ sagði nemandi í Norðlingaskóla þegar Fréttablaðið bar að garði en þá var Quidditch-leikur í anda Harry Potter í fullum gangi í íþróttasal skólans.

Í gær lauk Harry Potter viku í skólanum en hún er kennd annað hvert ár. Þá breytist unglingadeildin í Hogwarts-galdraskólann, stundataflan tekur mið af því og breytist. Eru fögin kennd í anda Hogwarts. Sem dæmi má nefna galdra og spádóma á dönsku, seyði mölluð í náttúrufræði og fleira skemmtilegt.

Vikan hófst með því að nemendur komu saman og fóru undir flokkunarhattinn sem raðaði nemendum í vistirnar fjórar, Slytherin, Gryffindor, Ravenclaw og Huffelpuff. Að því loknu fóru nemendur að gera vistirnar sínar heimilislegar og huggulegar.

Nemendur gengu líka í skólabúningum og voru í svörtum buxum, hvítri skyrtu með bindi og notuðust að sjálfsögðu við töfrasprota.

„Það eru sko tíu mínus stig á vistina ef maður mætir ekki í skólabúningnum,“ sagði annar nemandi en bindin bjuggu nemendurnir til sjálfir og merkilega margir áttu sinn eigin töfrasprota.

Flokkunarhatturinn raðaði nemendum í vistirnar fjórar.

Skólastjórnendur segja þessa viku toppinn á skólagöngunni hjá mörgum nemendum. Á hverjum degi var farið í vistarskoðun í upphafi og lok dags og gefin stig. Margir nemendur komu með dót að heiman sem passaði inn á vistirnar svo þær litu sem best út.

„Það eru mjög strangar reglur í Quidditch en samt er mikil harka. Það þurfti einn að fara upp á spítala eftir eina æfingu,“ sagði einn nemendanna og annar bætti við: „Við erum ekki búin að gera neitt annað í vikunni en Harry Potter. Halda spurningakeppni, taflkeppni og stærðfræðikeppni, leysa gátur, búa til seyði og svo gerðum við fréttablað – svona eins konar Spámannstíðindi.“

Vel hafi verið tekið á móti kennurunum þegar þeir heimsóttu heimavistirnar. „Þetta er búið að vera ótrúlega skemmtilegt en keppnisskapið er mikið og það fóru alveg nokkrir með tárin í augunum af því þeir unnu ekki.“

Þess má geta að Huffelpuff vann bæði leikana og Quidditch-leikinn. Hér fyrir neðan má sjá fleiri myndir úr Harry Potter vikunni.

Það var mikið stuð í skólanum þessa vikuna.
Ernir
Norðlingaskóli
Norðlingaskóli
Norðlingaskóli
Norðlingaskóli
Norðlingaskóli