Í nótt og í fyrramálið má búast við norðvestan stormi á austfjörðum og á suðausturlandi með tilheyrandi vindaviðvörunum, en á sama tíma dregur úr vindi í öðrum landshlutum samkvæmt hugleiðingum veðurfræðings Veðurstofu Íslands.

Þá sé norðan og norðvestan 15-23 metrar á sekúndu og snjókoma og því munu viðvaranir vegna hríðar taka gildi fyrir norðanvert landið undir kvöld. Skammt vestan við Vestfirði er 984 mb lægð sem veldur því að á landinu er suðvestan 8-15 metrar á sekúndu og víða él, en með morgninum mun birta til norðaustanlands. Er líður á daginn mun lægðin fara austur með norðurströndinni og því er von á skammvinnu norðanáhlaupi síðdegis og í kvöld.

Hiti verður yfirleitt í kringum frostmark í dag og á morgun, en þó verður heldur kaldara meðan norðanáttin verður ríkjandi á landinu.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á sunnudag:

Suðvestlæg átt, 5-13 m/s, en vestan 10-18 sunnan- og vestanlands síðdegis. Víða él, en bjart með köflum norðaustan- og austanlands. Kólnandi veður, frost 5 til 12 stig um kvöldið, en mildara við suðurströndina.

Á mánudag:

Fremur hæg breytileg átt og úrkomulítið, en gengur í suðaustan 8-15 þegar líður á daginn með snjókomu, fyrst suðvestan til. Hlýnar í veðri, slydda suðvestanlands um kvöldið.

Á þriðjudag, miðvikudag og fimmtudag:

Norðlæg átt með snjókomu eða éljum, en lengst af þurrt og bjart sunnan heiða. Frost um allt land.