Arctic Circle, þing Hringborðs norðurslóða, hélt áfram í Hörpu í gær. Á allsherjarþingi ráðstefnunnar leiddi Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra Íslands, pallborðsumræður, í samstarfi við fulltrúa Woodrow Wilson alþjóðamiðstöðvar fræðimanna.

Geir ræddi við öldungadeildarþingmennina Lisu Murkowski og Sheldon Whitehouse, Mark Green, forstjóra Woodrow Wilson miðstöðvarinnar, Mike Sfraga, formann Rannsóknarnefndar Bandaríkjanna um norðurslóðir og Heiðar Guðjónsson, fyrrverandi formann Norðurslóða viðskiptaráðsins.

Green sagði meginhlutverk Wood­row Wilson miðstöðvarinnar vera að styrkja sambandið á milli fræðasviðsins og opinberra stefnumála. Hann sagði málefni norðurslóða skipta miðstöðina miklu máli því þau sýndu áskoranir vegna loftslagsbreytinga í smækkaðri mynd.

„Staðreyndin er sú að norðurslóðir eru að hlýna þrisvar sinnum hraðar en heimshiti að meðaltali, maður gæti sagt að þær séu kanarífuglinn í kolanámunni. Enn mikilvægara er þó að þær segja okkur strax hverju við þurfum að hafa áhyggjur af.“

Whitehouse, öldungadeildarþingmaður Rhode Island, tók undir orð Green og ræddi jafnvægislistina við að vernda viðkvæm svæði á sama tíma og unnið er að efnahagsþróun.

„Atvinnulíf í heimi sem er í jafnvægi og umhverfisvænn og styður við sjálfbært mannlíf er einn hlutur. Atvinnulíf í heimi þar sem kerfi eru að breytast og riðlast og ný átök brjótast út og auðlindir sem voru eitt sinn fáanlegar eru að hrynja, er allt, allt annar heimur og mjög napurlegur heimur.“

Í kjölfar pallborðsins flutti Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra erindi þar sem hann fór yfir árangur Íslands í Norðurskautsráðinu á þeim tveimur árum sem landið fór með formennsku.

Guðlaugur sagði Ísland hafa tekið við formennsku í Norðurskautsráðinu á erfiðasta tíma í sögu ráðsins vegna ágreinings aðildarríkjanna um málefni loftslagsbreytinga. Hann kvaðst vera ánægður með árangur Íslands í formannsstólnum þrátt fyrir þær þrengingar sem Covid olli starfseminni.

„Stærsta afrekið var að mínu mati innleiðing fyrstu framtíðarstefnunnar í sögu ráðsins. Framtíðarstefnan veitir ráðinu langtíma leiðarvísi í vinnu þess til næstu tíu ára. Hún gefur ráðinu sterkari tilgang, gerir það ekki jafn viðkvæmt fyrir stefnubreytingum og leyfir því að útvíkka sjónarhorn sitt og umfang út fyrir hið hefðbundna tveggja ára tímabil.“

Guðlaugur kvaðst ánægður með árangur Íslands í formannsstóli Norðurskautsráðsins
fréttablaðið/anton

Olivier Poivre d'Arvor, sendiherra Frakklands í málefnum norður- og suðurskautsins, hélt einnig erindi þar sem hann ræddi markmið Frakka í þessum heimshluta, sem er töluvert fjarri þeirra áhrifasvæði. D‘Arvor sagði áhuga Frakklands á norðurslóðum fyrst og fremst vera vísindalegs eðlis. Frakkar líti hvorki á sjálfa sig sem norðurskautsþjóð né hafi þeir í hyggju að gera tilkall til þess.

„Við virðum fullkomlega fullveldi norðurskautsþjóðanna og þeirra forgangsrétt í málefnum norðurslóða. Á sama tíma getum við ekki hunsað að það er sameiginleg ábyrgð að takast á við þennan heimshluta þegar kemur að athöfnum á svæðum sem hafa áhrif á norðurslóðir,“ sagði hann.

D‘Arvor vinnur nú að fyrstu frönsku stefnumótuninni í málefnum norður- og suðurskautsins sem hann mun kynna fyrir Emmanuel Macron Frakklandsforseta á næstunni. Hann ítrekaði mikilvægi vísinda- og loftslagsrannsókna fyrir stefnumótunina.

„Ég sé loftslagsbreytingar ekki sem tækifæri, ég sé þær ekki sem hættu, ég sé þær sem raunveruleika sem við verðum að takast á við,“ sagði d‘Arvor.