Þau lönd sem eiga aðild að Norður­skauts­ráðinu taka upp fundi að nýju en halda Rússum utan við þá. Rússar segja að allar á­kvarðanir án þeirra að­komu að ráðinu verði ó­lög­legar.

Í kjöl­farið á inn­rás Rússa í Úkraínu á­kvað Norður­skauts­ráðið að hætta öllum funda­höldum þann 3. mars. Rússar tóku við for­mennsku í ráðinu af Ís­lendingum í maí árið 2021 og eiga að fara með hana í ár til við­bótar.

Á mið­viku­dag á­kváðu full­trúar allra annarra ríkja en Rúss­lands að halda fundum á­fram. Starf­semi ráðsins verður þó tak­markaðri en áður. Þessi lönd eru auk Ís­lands, Dan­mörk, Finn­land, Sví­þjóð, Noregur, Banda­ríkin og Kanada. Þrettán önnur ríki hafa á­heyrnar­full­trúa en þau tóku ekki þátt í á­kvörðuninni.

Anatoly Antonov, sendi­herra Rúss­lands í Banda­ríkjunum, brást við þessu í rúss­neska ríkismiðlinum TASS og lýsti því yfir að allt sem á­kveðið yrði án að­komu Rússa hefði enga þýðingu

„Það er verið að nota þennan sam­ráðs­vett­vang í stjórn­mála­legum til­gangi,“ sagði Antonov.

Einnig sagði sendi­herrann að ekki væri hægt að leysa á­skoranir norður­slóða án að­komu Rússa.