Fastafulltrúi Noregs hjá Sameinuðu þjóðunum flutti ræðu fyrir hönd Norðurlandanna hjá öryggisráði Sameinuðu þjóðanna á fimmtudaginn. Hvöttu Norðurlöndin þar deiluaðila til að sýna stillingu og leita friðsamlegra lausna á stöðunni sem upp er kominn eftir að Bandaríkjamenn felldu íranska hershöfðingjann Qassim Suleimani.
Í ræðunni lýstu Norðurlöndin yfir áhyggjum af því að marghliða, alþjóðleg samvinna ætti undir högg að sækja og sögðu þróun mála í mið-austurlöndum vera áhyggjuefni. Það væri hlutverk að aðildarþjóða Sameinuðu þjóðanna að bæði koma í veg fyrir átök og stuðla að friði.
Guðlaugur Þór lýsti yfir áhyggjum
„Það er gríðarlega mikilvægt að allir aðilar málsins sýni stillingu, hefji samræður og leiti friðsamlegra lausna á ágreiningsmálum sínum,“ sagði í ræðunni. „Alþjóðasamfélagið þarf að gera allt sem hægt er til þess að stuðla að langtíma pólitískri lausn á þeirri stöðu sem upp er komin.
Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, hafði í byrjun mánaðarins lýst yfir áhyggjum af spennunni á milli Bandaríkjanna og Íran. Hvatti hann í færslum á Twitter deiluaðila til þess að leita diplómatískra lausna og sagði ögranir Írana ógna stöðugleika og friði í mið-austurlöndum.
Árásir Írana á bandaríska sendiráðið í Írak og herstöðvar í landinu væru sérstaklega alvarlegar.
Deeply worried by today's developments in #Iraq. All parties must exercise restraint & seek diplomatic solutions to prevent further escalation. Iran’s repeated provocations in the region are damaging to #peace & #stability. https://t.co/Fx7TY7gc3O
— Guðlaugur Þór (@GudlaugurThor) January 3, 2020
Samstarfið reynst gríðarlega mikilvægt
Ræðan var flutt í sérstökum umræðum um stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna og kom þar fram að Norðurlöndin væru stuðningsmenn alþjóðlegrar samvinnu, sem væri sérstaklega mikilvæg um þessar mundir.
„Við stöndum frammi fyrir alþjóðlegum áskorunum á borð við hlýnun jarðar, flóttamannavanda, hryðjuverkum, mannúðarvanda og átökum sem engin þjóð getur leyst ein.“