Fasta­full­trúi Noregs hjá Sam­einuðu þjóðunum flutti ræðu fyrir hönd Norður­landanna hjá öryggis­ráði Sam­einuðu þjóðanna á fimmtu­daginn. Hvöttu Norðurlöndin þar deiluaðila til að sýna stillingu og leita frið­sam­legra lausna á stöðunni sem upp er kominn eftir að Banda­ríkja­menn felldu íranska hers­höfðingjann Qassim Suleimani.

Í ræðunni lýstu Norður­löndin yfir á­hyggjum af því að marg­hliða, al­þjóð­leg sam­vinna ætti undir högg að sækja og sögðu þróun mála í mið-austur­löndum vera áhyggjuefni. Það væri hlut­verk að aðildar­þjóða Sam­einuðu þjóðanna að bæði koma í veg fyrir átök og stuðla að friði.

Guð­laugur Þór lýsti yfir á­hyggjum

„Það er gríðar­lega mikil­vægt að allir aðilar málsins sýni stillingu, hefji sam­ræður og leiti frið­sam­legra lausna á á­greinings­málum sínum,“ sagði í ræðunni. „Al­þjóða­sam­fé­lagið þarf að gera allt sem hægt er til þess að stuðla að lang­tíma pólitískri lausn á þeirri stöðu sem upp er komin.

Guð­laugur Þór Þórðar­son, utan­ríkis­ráð­herra, hafði í byrjun mánaðarins lýst yfir á­hyggjum af spennunni á milli Banda­ríkjanna og Íran. Hvatti hann í færslum á Twitter deilu­aðila til þess að leita diplómatískra lausna og sagði ögranir Írana ógna stöðug­leika og friði í mið-austur­löndum.

Árásir Írana á bandaríska sendiráðið í Írak og herstöðvar í landinu væru sérstaklega alvarlegar.

Samstarfið reynst gríðarlega mikilvægt

Ræðan var flutt í sér­stökum um­ræðum um stofn­sátt­mála Sam­einuðu þjóðanna og kom þar fram að Norður­löndin væru stuðnings­menn al­þjóð­legrar sam­vinnu, sem væri sér­stak­lega mikil­væg um þessar mundir.

„Við stöndum frammi fyrir al­þjóð­legum á­skorunum á borð við hlýnun jarðar, flótta­manna­vanda, hryðju­verkum, mann­úðar­vanda og á­tökum sem engin þjóð getur leyst ein.“