Norðurál og Landsvirkjun hafa komist að samkomulagi um fast verð á þriggja ára raforkusamningi sem gildir á árunum 2024 til 2026, að því er kemur fram í tilkynningu vegna málsins. Um er að ræða framlengingu á fyrsta raforkusamningnum sem fyrirtækin gerðu sín á milli árið 1997. Horfið verður frá tengingu við Nord Pool, norræna raforkumarkaðinn.Miklar sveiflur hafa verið á Nord Pool-markaðnum frá því að núgilandi samningur Landsvirkjunar og Norðuráls tók gildi.

Samningsaðilar hyggjast aflétta trúnaði eftir þrjú ár, en þangað til er samningurinn trúnaðarmál af viðskiptalegum ástæðum.

Á árinu 2020 fór verðið næstum niður í núll, en var í gær vel yfir 50 evrum á megavattstundina. Miklar sveiflur á Nord Pool-markaðnum síðasta má rekja til óvanalega hárrar vatnsstöðu norska uppistöðulóna, sem og mikils samdráttar í raforkueftirspurn evrópsks iðnaðar í gegnum kórónukreppuna.

Upphaflegur samningur fól í sér orkukaup upp á 161 megavatti, en nýr, framlengdur samningur gerir ráð fyrir 182 megavöttum. Aukið raforkumagn skýrist annars vegar af framleiðsluaukningu sem fyrirhuguð er að Grundartanga og hins vegar raforkuþörf nýs steypuskála sem Norðurál hyggst reisa við Grundartanga.

Sterkur álmarkaður

Heimsmarkaðsverð á áli hefur hækkað hratt á undanförnum misserum. Álverð náði einum af sínum lægstu lægðum í apríl á síðasta ári og hjó nærri 1400 Bandaríkjadölum á tonnið. Verðið hefur hins vegar hækkað hratt og stóð í um 2500 Bandaríkjadölum á tonnið í gær.

Hækkun frá því apríl á síðasta ári er því tæplega 80 prósent.Verð á svokölluðum álboltum hefur hins vegar hækkað meira. Í mars á þessu ári seldust álboltar á Evrópumarkaði á um það bil 300 Bandaríkjadölum yfir áltonninu. Það álag hefur hins vegar meira en tvöfaldast síðan þá og stendur í um 1000 Bandaríkjadölum.

Því er eftir miklu að slægjast við framleiðslu álbolta um þessar mundir, ekki síst ef hægt er að setja á þá grænan stimpil. En sem kunnugt er nota íslensku álverin öll endurnýjanlega orku við sína framleiðslu.

Aðgerðir Evrópusambandsins er snúa að kolefnislandamærum eru einnig taldar styðja við evrópskan áliðnað, en ál frá Rússlandi og Kína munu að öllu bera þunga innflutningstolla innan skamms vegna mengandi orkugjafa álframleiðslu þar í landi.

„Við erum mjög ánægð með að hafa náð þessu samkomulagi við Landsvirkjun sem hefur verið traustur og áreiðanlegur samstarfsaðili Norðuráls frá upphafi. Undirstaða áætlana okkar um 15 milljarða fjárfestingu er hvort tveggja traustur rekstur, sem byggir á því góða fólki sem hjá Norðuráli starfar, og fyrirsjáanleiki. Í því ljósi er samningurinn afar mikilvægur," segir Gunnar Guðlaugsson, forstjóri Norðuráls:

„Það er fagnaðarefni að Landsvirkjun og Norðurál hafi náð saman um nýjan raforkusamning. Samningurinn er góður fyrir bæði fyrirtækin og tryggir nauðsynlegan fyrirsjáanleika í rekstri beggja aðila. Norðurál stefnir á fjölbreyttari og verðmætari framleiðslu í nýjum steypuskála og það gleður okkur sérstaklega að geta stutt við slíkan vöxt viðskiptavinar okkar," segir Tinna Traustadóttir, framkvæmdastjóri sölu og þjónustu hjá Landsvirkjun: