Yfir­­völd í Norður-Kóreu hafa brugðist ó­­­kvæða við á­­sökunum Banda­­ríkja­­stjórnar um að þau selji vopn til Rússa. Al Jazeera vitnar til yfir­lýsingar ó­nefnds hátt­setts em­bættis­manns í Norður-Kóreu sem birt var í ríkismiðli landsins þar sem segir að á­sakanirnar séu „glæfra­­legar“ og best væri fyrir Banda­­ríkja­­stjórn að „halda kjafti“. Með þessu væru Banda­­ríkja­­menn að reyna að „sverta orð­­spor“ landsins.

Fyrir nokkrum vikum sagði Vedant Patel, tals­maður banda­ríska utan­ríkis­ráðu­neytisins, að Rússar væru að „undir­búa kaup á miklu magni vopna og skot­færa frá Norður-Kóreu til brúks í Úkraínu“. Tals­maður banda­rískra yfir­valda í þjóðar­öryggis­málum, John Kir­by, dró um­mæli Patels að nokkru til bana skömmu síðar og sagði að um „hugsan­leg kaup“ væri að ræða og „ekkert benti til að gengið hefði verið frá kaupunum og ekkert benti til að slík vopn væru notuð í Úkraínu“.

Vedant Patel, tals­maður banda­ríska utan­ríkis­ráðu­neytisins.
Mynd/Twitter

Banda­rísk yfir­völd af­léttu leynd af skýrslum frá leyni­þjónustu­stofnunum í byrjun mánaðar þar sem sagði að Rússar keyptu milljónir eld­flauga og fall­byssu­kúla frá Norður-Kóreu. Slíkt væri brot á vopna­sölu­banni sem lagt hefur verið á Norður-Kóreu af Sam­einuðu þjóðunum. Rússar hafa neitað á­sökunum harð­lega og krefjast þess að Banda­ríkin leggi fram sannanir fyrir þeim. Banda­ríkja­menn hafa sömu­leiðis sakað Írani um að sjá Rússum fyrir drónum sem þver­taka fyrir það.

„Við for­dæmum þetta harð­lega og vörum Banda­ríkin ein­dregið við að dreifa slíkum á­róðri gegn Al­þýðu­lýð­veldinu Norður-Kóreu. Við höfum aldrei flutt vopn eða skot­færi út til Rúss­lands og slíkt stendur ekki til,“ hefur Korean Central News Agen­cy eftir em­bættis­manninum ó­nefnda. Hann undir­strikaði að Norður-Kórea hefði „laga­legan rétt“ til þess að flytja inn og út her­gögn. Landið viður­kenndi ekki „ó­lög­mætar“ refsi­að­gerðir öryggis­ráðsins sem væru „runnar undan rifjum Banda­ríkjanna og léns­velda þeirra“.