Kim Jong-un einræðisherra í Norður-Kóreu hefur svipt hulunni af nýrri skotflaug sem ríkismiðlar segja „öflugasta vopn heims“. Hann hyggst auka við fjölda kjarnavopna í eigu landsins og skaut föstum skotum að Bandaríkjunum í aðdraganda valdatöku Joe Biden þann 20. janúar.
Fjórar skotflaugar af hinni nýju gerð voru til sýnis í gríðarstórri hersýningu í höfuðborginni Pyongyang í gær. Skotflaugarnar eru hannaðar til að vera skotið frá kafbátum og samkvæmt sérfræðingum virðast þær stærri en þær flaugar sem vitað er til að megi finna í vopnabúri Norður-Kóreu.

Fyrir hersýninguna hafði Kim, á fundi með félögum sínum í kommúnistaflokki landsins sem fer þar með öll völd, lýst Bandaríkjunum sem „stærsta óvini landsins“. Þar kynnti hann einnig aðgerðir í efnahagsmálum en viðskiptaþvinganir Bandaríkjanna hafa leikið efnahag Norður-Kóreu grátt. Þeim var komið á til að refsa Kim fyrir kjarnavopnaáætlun sína.
Geta aukið á spennu á Kóreuskaga
Auk þess hefur landamærum landsins verið lokað vegna COVID-19 faraldurinn og uppskerubrestur orðið. Yfirvöld í Norður-Kóreu halda því fram að engin smit hafi greinst í landinu en sumir sérfræðingar í málefnum landsins telja að faraldurinn hafi borist þangað í mars.
Ef það reynist rétt að hinar nýju skotflaugar séu til þess gerðar að vera skotið frá kafbátum er það víst til að auka á spennuna milli Norður-Kóreu, Bandaríkjanna og bandamanna þeirra Suður-Kóreu og Japans. Erfiðara er fyrir eftirlitskerfi að greina þegar skotflaugum er skotið frá kafbátum en af landi.