Kim Jong-un ein­ræðis­herra í Norður-Kóreu hefur svipt hulunni af nýrri skot­flaug sem ríkismiðlar segja „öflugasta vopn heims“. Hann hyggst auka við fjölda kjarna­vopna í eigu landsins og skaut föstum skotum að Banda­ríkjunum í að­draganda valda­töku Joe Biden þann 20. janúar.

Fjórar skot­flaugar af hinni nýju gerð voru til sýnis í gríðar­stórri her­sýningu í höfuð­borginni Pyongy­ang í gær. Skot­flaugarnar eru hannaðar til að vera skotið frá kaf­bátum og sam­kvæmt sér­fræðingum virðast þær stærri en þær flaugar sem vitað er til að megi finna í vopna­búri Norður-Kóreu.

Nýju skotflaugarnar á hersýningu í Pyongyang í gær.
Mynd/KCNA

Fyrir her­sýninguna hafði Kim, á fundi með fé­lögum sínum í kommún­ista­flokki landsins sem fer þar með öll völd, lýst Banda­ríkjunum sem „stærsta ó­vini landsins“. Þar kynnti hann einnig að­gerðir í efna­hags­málum en við­skipta­þvinganir Banda­ríkjanna hafa leikið efna­hag Norður-Kóreu grátt. Þeim var komið á til að refsa Kim fyrir kjarna­vopna­á­ætlun sína.

Geta aukið á spennu á Kóreuskaga

Auk þess hefur landa­mærum landsins verið lokað vegna CO­VID-19 far­aldurinn og upp­skeru­brestur orðið. Yfir­völd í Norður-Kóreu halda því fram að engin smit hafi greinst í landinu en sumir sér­fræðingar í mál­efnum landsins telja að far­aldurinn hafi borist þangað í mars.

Ef það reynist rétt að hinar nýju skot­flaugar séu til þess gerðar að vera skotið frá kaf­bátum er það víst til að auka á spennuna milli Norður-Kóreu, Banda­ríkjanna og banda­manna þeirra Suður-Kóreu og Japans. Erfiðara er fyrir eftir­lits­kerfi að greina þegar skot­flaugum er skotið frá kaf­bátum en af landi.