Í dag spáir Veðurstofan norðaustan 20-25 m/s, en hægari vind norðaustantil á landinu. Það verður skafrenningur í öllum landshlutum og víða snjókoma eða él, en úrkomulítið á Suður- og Vesturlandi. Vindur verður heldur hægari eftir hádegi. Það verður þurrt um landið suðvestanvert, slydda eða rigning á Austfjörðum og slydda eða snjókoma norðantil. Hiti verður um og yfir frostmarki.

Á morgun dregur úr vindi, fyrst austantil. Það verða norðvestan 8-15 m/s á Austurlandi annað kvöld, en annars hæg breytileg átt. Það verða dálítil él um norðanvert landið og hiti í kringum frostmark. Útlit er fyrir úrkomuminni daga með rólegum vind fram að helgi en næsta lægð kemur á sunnudag með rigningu og hlýju veðri.

Slæm færð, óvissustig og viðvaranir

Færð verður áfram óstöðug á norðurhelmingi landsins í dag vegna hríðarveðurs og viðvaranir eru í gildi í öllum landshlutum í dag, ýmist vegna vinds eða hríðar.

Óvissustig vegna snjóflóðahættu er í gildi á norðanverðum Vestfjörðum og á Ísafirði er hættustig vegna snjóflóða. Appelsínugul viðvörun vegna veðurs er í gildi á Breiðafirði, Vestfjörðum, Ströndum og Norðurlandi vestra, Suðausturlandi og Miðhálendi.

Gul viðvörun vegna veðurs er í gildi á höfuðborgarsvæðinu, Suðurlandi, Faxaflóa, Norðurlandi eystra, Austurlandi að Glettingi, Austfjörðum, Suðausturlandi og Miðhálendi.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á miðvikudag:

Norðaustan 15-23 m/s um landið norðvestanvert, en annars norðlæg átt 10-15 m/s. Snjókoma á Vestfjörðum, en él eða slydduél norðan- og austanlands, en annars úrkomulítið. Dregur úr vindi og úrkomu þegar líður á daginn. Vægt frost, en víða frostlaust við ströndina.

Á fimmtudag:

Suðlæg átt 5-13 m/s, dálítil él, einkum sunnan- og vestantil. Hiti um og undir frostmarki.

Á föstudag:

Vestlæg átt 8-15 m/s og él, en hægari og úrkomulítið fyrir austan. Frost um mest allt land.

Á laugardag:

Vestlæg átt og bjartviðri, en stöku él um landið vestanvert. Snýst í vaxandi sunnanátt vestast á landinu síðdegis. Frost 1 til 9 stig, kaldast inn til landsins.

Á sunnudag:

Stíf sunnan- og suðvestanátt með rigningu og hlýnandi veðri.

Á mánudag:

Útlit fyrir allhvassa vestlæga átt með él á vesturhelming landsins. Kólnandi.

Færð og ástand vega

Yfirlit:

Vetrarfærð er um mest allt land. Vegir eru víða ófærir eða lokaðir á Vesturlandi, Vestfjörðum og í Norðurlandi eftir nóttina og víða má reikna með slæmu ferðaveðri í dag.

Suðvesturland:

Mosfellsheiði er ófær en unnið er að hreinsun. Það er mjög hvasst á Kjalarnesi og vindhviður fara yfir 45 m/s.

Vesturland:

Ófært er á sunnanverðu Snæfellsnesi og mjög hvasst. Einnig er ófært á Laxárdalsheiði. Þæfingsfærð er á Svínadal. Brattabrekka og Holtavörðuheiði eru lokaðar.

Vestfirðir:

Vegir eru víðast ófærir eða lokaðir og enn er slæmt veður og óvíst um mokstur.

Þröskuldar, Miklidalur, Hálfdán, Flateyrarvegur, Súðavíkurhlíð og Steingrímsfjarðarheiði eru lokaðar.

Norðurland:

Vegir eru víða þungfærir eða ófærir og fjallvegir lokaðir. Vatnsskarð, Þverárfjall, Siglufjarðarvegur Öxnadalsheiði og Ólafsfjarðarmúli eru lokaðir.

Austurland:

Þungfært er á Fjarðarheiði en annars víða snjóþekja og snjókoma.

Suðausturland:

Lokað er frá Kirkjubæjarklaustri að Jökulsárlóni vegna óveðurs.

Suðurland:

Víða ófært eða þungfært eftir nóttina í uppsveitum en unnið að mokstri. Lyngdalsheiði er lokuð.