„Við erum að halda á­fram að leita að henni og við erum enn þá að bíða eftir að hún komi heim,“ segir Þuríður Blær Jóhanns­dóttir, leik- og söng­kona í sam­tali við Frétta­blaðið. Hún er annar eig­andi kattarins Nóru sem fjar­lægð var úr mið­bæ Reykja­víkur en slapp síðan úr vörslu borgarinnar.

Starfs­menn borgarinnar fönguðu og fjar­lægðu Nóru í kjöl­far kvartana frá ó­sáttum ná­granna í byrjun júní. Eig­endur hennar voru ekki látnir vita að hún hefði verið fönguð.

Nóra hefur ekki enn snúið aftur heim til sín en Þuríður Blær segist vera von­góð um að hún finnist og komi aftur heim. „Hún er ekki komin enn þá í leitirnar, en ég er von­góð,“ segir Þuríður Blær.

Þuríður Blær segist vera í góðum sam­skiptum við Reykja­víkur­borg en þegar Frétta­blaðið tók við­tal við hana fyrr í mánuðinum sagði hún starfs­menn borgarinnar vera leiða yfir málinu.

Nóra hefur sést í Laugar­dalnum en það er nokkuð langt frá heimili hennar. „Hún hefur sést á öryggis­mynda­vél, þannig að hún er enn þá á þessum stað. Ég er búin að fara þrisvar að kalla á hana en hún kemur ekki. Ég er farin að halda að hún vilji bara vera þarna, alla­vegana yfir sumarið,“ segir Þuríður Blær.

„Hún virðist vera í góðu yfir­læti,“ segir hún létt en bætir við að hún voni að Nóra komi bráðum heim.