Gróðureldar kviknuðu víða í gærkvöldi og nokkuð var um flugeldaslys. Viðbragðsaðilar höfðu í nógu að snúast en slökkviliðið fór í um sjötíu útköll, sjúkraflutningar í um áttatíu útköll og lögreglan á höfuðborgarsvæðinu skráði 125 mál.
Varðstjóri hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu sagðist í samtali við fréttastofu Vísis aldrei hafa upplifað neitt þessu líkt í sínum þrjátíu ára ferli. Eftir miðnætti í nótt var farið að biðla til almennings að hætta að skjóta upp flugeldum.
Rúmlega tuttugu tilkynningar komu á borð lögreglu sem vörðuðu elda. Meðal annars hafði kviknað í húsþökum, ruslagámum, í gróðri og í bíl. Gróðureldar voru tilkynntir víðs vegar, í hverfum 220, 111, 109, 270, 112, 113 og 110. Einnig voru útköll vegna elda í eða við íbúðir
Nokkuð var um slys vegna flugelda. Tveir unglingar fóru í bráðadeild í sitt hvoru atvikinu vegna brunasára. Tveir menn slösuðust eftir að flugeldur sprakk í höndum þeirra beggja. Fjórir flugeldar rötuðu inn um glugga og ullu tjóni.
Þá var einnig tilkynnt um krakkahóp sem voru að kasta flugeldum í hvort annað en þeir voru farnir þegar lögregla mætti á vettvang. Annar krakkahópur var tilkynntur fyrir tilraun til að kveikja í grunnskóla í hverfi 112.
Endalausir eldar í gámum, ruslatunnum og sinu. En á sama tíma útköll á sjúkrabíla. Einhvern veginn endaði ég í eldgalla inná LSH í covidflutningi. Má nánast líkja þessu kvöldi við stríðsástand PLÍS hættiði með þessa flugelda, ég er í vaktafríi og ætti að vera heima núna pic.twitter.com/2kCPAfSKOt
— Áslaug Birna (@slaug20) January 1, 2022
Slökkviliðs- og sjúkraflutningakona líkti kvöldinu við stríðsástandi í Twitter-færslu. Hún þurfti að mæta á vaktina þrátt fyrir vaktafrí til að berjast við þá fjölda elda sem blossuðu upp og sinna útköllum á sjúkrabílum.