Gróður­eldar kviknuðu víða í gær­kvöldi og nokkuð var um flug­elda­slys. Við­bragðs­aðilar höfðu í nógu að snúast en slökkvi­liðið fór í um sjö­tíu út­köll, sjúkra­flutningar í um átta­tíu út­köll og lög­reglan á höfuð­borgar­svæðinu skráði 125 mál.

Varð­stjóri hjá slökkvi­liðinu á höfuð­borgar­svæðinu sagðist í sam­tali við frétta­stofu Vísis aldrei hafa upp­lifað neitt þessu líkt í sínum þrjá­tíu ára ferli. Eftir mið­nætti í nótt var farið að biðla til al­mennings að hætta að skjóta upp flug­eldum.

Rúm­lega tuttugu til­kynningar komu á borð lög­reglu sem vörðuðu elda. Meðal annars hafði kviknað í hús­þökum, rusla­gámum, í gróðri og í bíl. Gróður­eldar voru til­kynntir víðs vegar, í hverfum 220, 111, 109, 270, 112, 113 og 110. Einnig voru út­köll vegna elda í eða við í­búðir

Nokkuð var um slys vegna flug­elda. Tveir ung­lingar fóru í bráða­deild í sitt hvoru at­vikinu vegna bruna­sára. Tveir menn slösuðust eftir að flug­eldur sprakk í höndum þeirra beggja. Fjórir flug­eldar rötuðu inn um glugga og ullu tjóni.

Þá var einnig til­kynnt um krakka­hóp sem voru að kasta flug­eldum í hvort annað en þeir voru farnir þegar lög­regla mætti á vett­vang. Annar krakkahópur var tilkynntur fyrir tilraun til að kveikja í grunnskóla í hverfi 112.

Slökkviliðs- og sjúkraflutningakona líkti kvöldinu við stríðsástandi í Twitter-færslu. Hún þurfti að mæta á vaktina þrátt fyrir vaktafrí til að berjast við þá fjölda elda sem blossuðu upp og sinna útköllum á sjúkrabílum.