Íbúar í Flórída standa nú í ströngu vegna gríðarlegrar eyðileggingar eftir fellibylinn Ian sem gekk yfir svæðið í lok september síðastliðnum en sífellt fleiri dauðsföll eru staðfest.

The Guardian greinir frá því að búið sé að staðfesta yfir 81 dauðsfall vegna fellibylsins en búist er við að talan muni hækka.

Björgunarsveitarfólk vinnur erfiðar og langar vaktir við að kemba svæðin og leita að fólki. Á sunnudaginn hafði meira en 1.600 manns verið bjargað.

Greint hefur verið frá því að Ian sé einn sterkasti fellibylur sem komið hefur á land í Flórída og þúsundir þurftu að flýja heimili sín. Vindhraði hans var allt að 67 metrar á sekúndu og fylgdu mikil flóð í kjölfar sem enn eru vandamál víða.

Fort Myers Beach í Flórída í gær.
Fréttablaðið/Getty Images

Fréttablaðið ræddi við Íslendinga sem búsettir eru í Flórída eftir að fellibylurinn gekk yfir. Guðrún Newman, íbúí í Sarasota, sagðist hafa sagðist hafa sopið hveljur á meðan versta veðrið stóð yfir.

„Ég hélt að þakið myndi fara af og ég er með frekar nýlegt hús. Maður bara saup hveljur hérna, ég var alveg skíthrædd,“ sagði Guðrún en sem betur fer slasaðist hvorki hún né fjölskylda hennar í storminum.

„Allir Íslendingar sem ég þekki hér, það er allt í lagi með þá, þó að það hafi kannski rifnað aðeins af þakinu hjá sumum. En það er allt í lagi með alla og allir á lífi,“ sagði Guðrún.

Fort Myers Beach í Flórída í gær.
Fréttablaðið/Getty Images

Tvær milljónir manna voru án rafmagns þegar fellibylurinn gekk yfir. Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, lofaði að Flórídabúum yrði veitt öll sú aðstoð sem þörf væri á.